Landsmenn fjölmenntu á mótmælafundi á þremur stöðum á landinu í dag. Í fyrsta sinn var mótmælt á Ísafirði, og í 12. sinn á Akureyri. Til 13. mótmælafundar eftir Kreppu kerlingu var boðað undir yfirsögninni „Breiðfylking gegn ástandinu“ í suddanum í miðborg Reykjavíkur í dag. Átta ára stúlka Dagný Dimmblá Jóhannsdóttir var einn framsögumanna og var ræða hennar full af eldmóði og reiði í garð ráðamanna sem hafa komið tugum milljóna í skuldum á hennar ungu herðar og auðvitað á herðar allra annarra landsmanna.

Hörður Torfason varaði viðstadda við því að nota ofbeldi eða vinna skemmdarverk enda vinni það einungis gegn baráttunni og eyðileggi fyrir öllum hinum sem mættir eru til að mótmæla á friðsamlegum nótum. Dóra Ísleifs og Einar Már Guðmundsson fluttu einnig áhrifaríkar ræður og samhugur um áherslur eins og kröfuna um að fá að kjósa var sterk meðal mótmælanda.

Því miður hefur fyrirfarist að minna á þau tæki sem gerð hafa verið til að koma kröfunni um kosningar á framfæri. Jafnvel á stóru mótmælafundunum á Austurvelli er ekki minnst á vefinn kjósa.is sem sérstaklega var settur upp til að koma kröfunni um kosningar miilliliðalaust á framfæri til ráðamanna. Kjósa.is er óháður undirskriftarlisti fyrir þá sem vilja að kosið verði sem fyrst til að ráðamenn fái annað hvort endurnýjað umboð sitt eða dregið sig í hlé.

Myndin er tekin í blautvirðinu á Austurvelli í dag. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
3. janúar 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Venjubundinn laugardagur í miðbænum“, Náttúran.is: 3. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/03/venjubundinn-laugardagur-i-miobaenum/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: