Bækur eru yndislegt verkfæri, hvort heldur sem er til afþreyingar, til að skilja heiminn sem við lifum í eða menntunar. Menningar- og menntunarstig þjóða er oft metið í leskunnáttu og bókarlestri. Við Íslendingar erum sem betur fer menningarþjóð sem leggur mikið upp úr lestri og kaupir mikið af bókum sem eftir lestur verða því miður fangar bókahilla í ár eða áratugi. Hvernig væri að frelsa bækurnar úr bókahillunum. Þegar þú ert búinn að lesa ákveðna bók, hvernig væri að skrifa fremst í hana hver þú ert og hvenær þú last hana. Skilja hana síðan eftir á almennum stað, eins og strætó eða kaffihúsi svo að aðrir geti notið hennar. Bókin verður marglesin öðrum til ánægju.

Frá umhverfissjónarmiði fer minni pappír í að prenta fáar bækur sem eru marglesnar í stað margra bóka sem eru lesnar af fáum. Einnig má gefa bækur til vina eða koma til fornsölu. Bækur eru pappírsfrekar og til pappírsframleiðslu þarf skóglendi. En pappír í bókum er minniháttar mál miðað við öll dagblöð sem eru keypt og hent næsta dag. Á löngum tíma eyðist pappírinn og brotnar niður. Endurunninn pappír er notaður í grófari pappírsframleiðslu s.s. klósettpappír. Sýrustig pappírs er eitt af því sem að umhverfismerkingar taka viðmið af. Svanurinn umhverfismerki Norrænu Ráðherranefndarinnar tekur til framleiðsluferlis og umhverfisáhrifa pappírs.

Forðastu að kaupa bókaskáp úr regnskógarvið svo sem teak, merbau, mahogany. Hafðu það þó í huga að betra er að kaupa bókaskáp úr sterkum góðum viði sem endist lengi en ódýra bókaskápa úr lélegum viði sem þarf að endurnýja mun oftar, jafnvel á nokkurra ára fresti.

Birt:
21. nóvember 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bækur“, Náttúran.is: 21. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/25/bkur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. júní 2007
breytt: 16. maí 2014

Skilaboð: