Beint frá býli eða Beint frá bónda?
Verkefnið Beint frá býli fór af stað fyrir nokkrum árum fyrir tilstuðlan Landbúnaðarráðuneytisins undir handleiðslu Bændasamtaka Íslands en hefur nú verið landað í hendur bændanna sjálfra sem stofnað hafa Beint frá býli - Félag heimavinnsluaðila en félagið var stofnað að Möðrudal á Fjöllum nú í byrjun árs. Sjá þátttakendur og staðsetningu hér á grænum síðum og grænu Íslandskorti.
Merki félagsins var kynnt fyrir nokkrum árum siðan, bæklingur um heimavinnslu gefinn út og kynningarfundir haldnir víða um land. Mikill áhugi virtist vera fyrir hendi bæði hjá hinum almenna neytenda, Bændasamtökunum og bændunum sjálfum og magnaðist áhuginn mjög með tilkomu samvinnu við Listaháskóla Íslands en vöruhönnunardeild skólans tókst að fá styrk frá Rannís til að vinna með bændum í verkefni sem nefnist „Stefnumót hönnuða og bænda“ að vöruhönnun valinna afurða. Verkefnið var síðan framlengt og Matís kom inn í vöruþróunina sjálfa. Hugmyndir að fjölbreyttum og skemmtilegum vörum hafa litið dagsins ljós í þessu samstarfi við frjóa huga ungra hönnuða Listaháskólans og nokkrar þeirra hafa aukendis fengið handleiðslu inn í framleiðsluferlið. Tvær vörutegundir eru nú tilbúnar. Það er sláturtertan sem fæst beint frá býli Möðrudals á Fjöllum og rababarabrjóstsykur úr lífrænt vottuðum rabarbara frá Löngumýri en hann fæst í Vínberinu við Laugarveg. Nýting merkis Beint frá býli hefur þó ekki ný st á margar vörur því ferlið hefur í flestum tilvikum ekki fylgt vörum á markað. Það er því hægt að segja að neytendur séu tilbúnir en framleiðendur ekki fengið þann stuðning sem nauðsynlegur er til að koma vörunum alla leið til neytandans.
Kannski vegna seinagangs Beint frá býli við að koma vörum á markað tók Nóatún í vor upp á því að markaðssetja íslenskar landbúnaðarafurðir og þá aðallega grænmeti, lífrænt og ekki lífrænt, undir merkinu Beint frá bónda sem verður að teljast nokkuð stolið og of líkt Beint frá býli til að geta flokkast sem annað en tilraun til að notfæra sér þá athygli sem Beint frá býli hlotnaðist en hefur ekki getað uppfyllt sem skildi gagnvart neytendum. Það liggur við að notkun þessa merkis og markaðssetningin öll sé ósvífin gagnvart Beint frá býli en athuga verður að markaðurinn býður ekki eftir framleiðendum og því er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld, Bændasamtökin og rannsóknarstofnanir í landinu drífi sig nú í því að uppgötva ávinning þann sem liggur í flottum vörum úr íslenskum náttúruafurðum og taki verkefnið inn í raunveruleikann. Við höfum engan tíma að missa. Bændurnir sjálfir eru kannski bestir til að íta á um fyrirgreiðslur en þeir eru hvorki markaðsmenn né hönnuður og þurfa á stuðningi að halda frá öllum vígstöðvum. Þetta snýst heldur ekki bara um einstaka bændur eða einstaka verslanir heldur nýsköpun sem aðdráttarafl fyrir landið allt. Ekki veitir af, einmitt núna, að draga fram það góða og pússa það rækileg upp og klæða í sparibúninginn.
Sjá vef beintfrabyli.is.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Beint frá býli eða Beint frá bónda?“, Náttúran.is: 7. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/07/beint-fra-byli-eoa-beint-fra-bonda/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 22. október 2008