Bílaumferð í Reykjavík stendur  nánast í stað milli áranna 2009 og 2010. Hún dregst saman á tilteknum stöðum en eykst annars staðar. Niðurstaðan í heild er tæplega 1% aukning. Hjólreiðar hafa einnig aukist í borginni.

Árlega er umferðarmagn kannað í Reykjavík með því að telja umferð á völdum stöðum. Umferð er skráð handvirkt í 12 klst. á hverjum stað, frá kl. 7:00-19:00. Einnig er stuðst við fasta umferðarteljara og gögn frá Vegagerðinni.

Umferð hefur dregist saman vestan Lækjargötu en þar mældust tæplega 95 þúsund bifreiðar á mælingarstöðum á sólarhring árið 2009 en 87 þúsund árið 2010. Umferð dróst einnig saman á Vesturlandsvegi við Úlfarsá en jókst víða annars staðar í borginni eða stóð í stað, meðal annars á Breiðholtsbraut, Reykjanesbraut, Ártúnsbrekku, Sæbraut, í Borgartúni og Miklubraut.

“Áberandi er að á Reykjanesbraut hefur orðið mikil aukning bílaumferðar (10,2%). Hins vegar dró þó nokkuð úr umferð á Laugaveginum en jókst að sama skapi í Borgartúni en geta má þess að nýr ljósabúnaður var annars vegar settur upp á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Laugavegar og hins vegar Kringlumýrarbrautar og Borgartúns,” segir Björg Helgadóttir hjá Samgönguskrifstofu Umhverfis- og samgöngusviðs.

Fjöldi hjólreiðamanna hefur verið talinn árin 2009 og 2010 og því er í fyrsta skipti nú hægt að bera saman fjölda þeirra. Veruleg aukning hjólreiðamanna er á hjólastígum í Fossvogi og á Bíldshöfða. Reykjavíkurborg hefur látið gera sérstaka hjólastíga í Ægisíðu og Fossvogi og virðist það greinilega skila sér í fleiri hjólandi.

Tengill

Kynning á sniðtalningu

Birt:
16. febrúar 2011
Tilvitnun:
Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur „Bílaumferð stendur í stað í Reykjavík“, Náttúran.is: 16. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/16/bilaumferd-stendur-i-stad-i-reykjavik/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: