Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindi sitt Íslenskar fjörufléttur af svertuætt á Hrafnaþingi miðvikudaginn 9. febrúar kl. 15:15.

Flestar fjörufléttur sem vaxa við strendur landsins eru af svertuætt. Þekktust þeirra er fjörusvertan (Hydropunctaria maura) sem myndar oft áberandi svart belti sem nær rétt upp fyrir mörk stórstraumsflóðs. Fleiri svertutegundir vaxa við sjóinn, sumar við svipaðar aðstæður og fjörusvertan meðan aðrar, líkt og grænsvertan (Wahlenbergiella mucosa), vaxa neðar og koma einungis úr kafinu á fjöru. Sagt verður frá lífsháttum þessara fléttna og þróunarsaga þeirra rædd.

Nýlegar þróunarsögurannsóknir byggðar á raðgreiningu tveggja svæða, þ.e. nucLSU og RPB1, benda til að margar ættkvíslir innan ættarinnar séu margætta. Í kjölfarið var tveimur nýjum ættkvíslum, Hydropunctaria og Wahlenbergiella, lýst. Hydropunctaria inniheldur margar tegundir sem vaxa við ferskvatn auk þess sem algengasta tegund ættarinnar, fjörusverta (Hydropunctaria maura), tilheyrir henni. Aðrar tegundir sem vaxa í fjörum virðast tilheyra Wahlenbergiella eins og grænsverta (Wahlenbergiella mucosa).

Greint verður frá fyrstu niðurstöðum rannsókna á afmörkun og þróunarsögu íslenskra tegunda ættarinnar. Einnig verður fjallað um strimlaflögu (Endocarpon pulvinatum) sem er óvenjulegur fulltrúi svertuættar þar sem hún er runnkennd.

Svertuætt (Verrucariaceae) er stór ætt sem einkum geymir fléttumyndandi tegundir. Af ættinni eru um 70 tegundir þekktar á Íslandi. Ættin einkennist m.a. af að hafa aska í skjóðum og vaxa tegundir hennar í ýmsum búsvæðum þó þær séu mest áberandi í votum búsvæðum. Afmörkun ættkvísla innan ættarinnar hafa hingað til einkum byggst á þremur útlitseinkennum: Skilveggjum gróa, útliti þals og hvort þörungafrumur séu til staðar í gróbeði.

Erindið verður sent út sem fjarfundur á slóðinni http://get.netviewer.thekking.is/home/men260568nv64 Hlaða þarf niður forritsbútnum Netviewer til að horfa á erindið í beinni útsendingu.

Ljósmynd: Grænsverta (W.mucaso), Starri Heiðmarsson.

Birt:
8. febrúar 2011
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Íslenskar fjörufléttur af svertuætt“, Náttúran.is: 8. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/08/islenskar-fjoruflettur-af-svertuaett/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: