Kerfils-svaladrykkur – Uppskrift
Uppskrift af kerfils-svaladrykk frá Önnu Karlsdóttur:
Tínið minnst 40-50 lauf af kerfli*, á stað fjarri byggð og þar sem gnægt er af honum. Ekki skaðar að taka hann þar sem hann er óvelkominn en kerfill er mjög ágeng jurt og þolir vel góða grisjun, jafnvel þar sem hann er velkominn.
- Sjóðið 2 lítra af vatni með 1 kílói af sykri (gæti t.d verið helmingur hvítur og helmingur brúnn eða minna unninn sykur).
- 3 -4 sítrónur (helst lífrænar, annars vel skrúbbaðar) í sneiðum.
- Leggið blöðin og sítrónur í skál eða pott í lög eins og lasagna - hellið síðan sykurvatninu yfir.
- Látið kólna niður í stofuhita á meðan að hrært er varlega í mjöðnum.
- Setjið skál á kaldan stað í fjóra sólarhringa og passið að hræra vel að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag.
- Síið vökvann í gegnum sigti og grisju og setjið á flöskur
- Ef að þið notið glerflöskur þurfið þið að halda þeim í kælingu - annars plastflöskur.
- Njótið - útþynnts drykkjarins með kolsýrðu vatni og klaka eða kranavatni.
*Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris) er slæðingur sem borizt hefur hingað frá útlöndum. Hans er fyrst getið í nágrenni Akureyrar á 3. áratug síðustu aldar, en er nú löngu orðinn ílendur. Hann er farinn að dreifa sér ört út á eigin spýtur. Hann sækir mjög í að mynda samfelldar breiður sem ekkert fær stöðvað. Skepnur bíta hann lítið, og hann vex einnig vel í skugga og þekur stundum skógarbotna. Skógarkerfill líkist nokkuð spánarkerfli, en vantar anísbragðið af blaðstilkunum og hefur mun minni og fremur slétt aldini. Nú á síðustu árum hafa menn áhyggjur af ágengni skógarkerfilsins. Einkum leggur hann undir sig frjósamt land sem hefur verið auðgað af köfnunarefni, svo sem gömul tún og lúpínubreiður.
Ljósmynd: Kerfilsblað, Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Anna Karlsdóttir, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Kerfils-svaladrykkur – Uppskrift“, Náttúran.is: 14. júlí 2015 URL: http://nature.is/d/2011/05/16/kerfils-svaladrykkur-uppskrift/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. maí 2011
breytt: 14. júlí 2015