Hvítsmári og fjögurra blaða smári
Það hefur löngum vakið forvitni mína hvernig stendur á því að hvítsmárinn [Trifolium repens] vex í hringi og eins og flokkur fjöldi blóma myndi eyjur eða kransa sem eru jafnan grænni og grónari innan kransins en utan. Þessi dularfulla jurt var í barnæsku minni, lykill að óskabrunni, findi maður fjögurra blaða smára. Mig minnir að ég hafi nokkrum sinnum fundið fjögurra blaða smára en kannski var það bara vegna þess að lítil augu rugluðust í ákafri leit að lukkunni. Sjá meira um fjögurra blaða smára á Vísindavefnum.
Í bókinni Íslensk flóra eftir Ágúst H. Bjarnason, segir í undirtexta sem vísar í þjóðlegar heimildir (án nánari skýringa um hvaðan þær séu upprunnar): „Te af blöðum þótti gott við bólgu, brjóstveiki, gulu og einkum ígerðum. Grauta af blöðum og blómum var talið gott að leggja við bólgur. Sé rótin skorin smátt og seydd í mjólk, er hún besti matur.“
Á vefnum Flóra Íslands segir svo: „Hvítasmárinn er algengur um allt land. Hann vex í valllendi, móum og túnum. Í sumum landshlutum fylgir hann nokkuð byggðinni og hegðar sér líkt og gamall, rótgróinn slæðingur, en annars staðar, einkum á Norður- og Austurlandi er hann útbreiddur um hagann og upp til fjalla. Smárinn er níturbindandi jurt eins og margar belgjurtir, og skríður út til jaðranna í næringarsnauðum jarðvegi og byrgir hann upp af nítursamböndum.“
Sjá útbreiðslukort á Plöntuvefsjá NÍ. (Ath. að slá þarf inn annað hvort íslenska eða latneska heitið).
Ljósmynd: Hvítsmári, tekin við Hvolfsvöll þ. 20.07.2006. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvítsmári og fjögurra blaða smári“, Náttúran.is: 4. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/hvitsmari/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 4. júlí 2014