„Ísland gæti innan skamms orðið nær óháð erlendum orkugjöfum samhliða komandi fjöldaframleiðslu á rafmagns- og tengil-tvinnbílum,“ segir í fréttatilkynningu um fund bílaframleiðenda og orkufyrirtækja hér á landi í september.

Ráðstefnan er haldin undir yfirskriftinnin Driving Sustainabilty. Í tilkynningu segir að komandi bylting í rafmagsnsamgöngum á næstu fimm árum. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands er verndari ráðstefnunnar sem hefst kl. 9:05 að morgni fimmtudagsins 18. september

Hátt settir stjórnendur bílaframleiðendanna Toyota, Ford, og Mitsubishi munu á ráðstefnunni veita innsýn í tæknilausnir sem miða að sjálfbærum samgöngum og munu standa neytendum til boða frá næsta og þarnæsta ári.

Stærstu orkufyrirtæki Norðurlanda, Vattenfall í Svíþjóð og Dong Energy í Danmörku, vinna nú hörðum höndum að innleiðingu rafmagns í samgöngum, og munu þau skýra ráðstefnugestum frá áætlunum sínum. Hækkandi olíuverð, hröð þróun í rafhlöðum og hátækni leiðir þessa byltingu.

Volvo og Saab eru í samstarfi við Vattenfall um innleiðingu tengil-tvinnbíla í Svíþjóð, en þeim bílum má stinga í samband og aka tugi kílómetra á rafmagni áður en hefðbundin bílvél tekur við. Renault-Nissan samsteypan er hins vegar í samstarfi við Dong Energy, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur um innleiðingu rafmagnsbíla og rafhlöðuskiptistöðva þar í landi ásamt bandaríska fyrirtækinu Better Place. Þá munu yfirmenn Mitsubishi Heavy Industries í Japan fjalla um hlutverk bifreiða í sjálfbærum orkuinnviðum og Mitsubishi Motors kynna rafmagnsbílinn MiEV en fjöldaframleiðsla á honum hefst á næsta ári.

Hinn heimsþekkti svissneski flugkappi og geðlæknir Dr. Bertrand Piccard mun deila framtíðarsýn sinni á hvernig fersk hugsun og nýjar hátæknilausnir geta rutt brautina fyrir sjálfbærar samgöngur. Dr. Piccard er mikill ævintýramaður, var fyrstur manna til að fljúga í kringum hnöttinn í loftbelg fyrir nokkrum árum og sigraði þá frumkvöðulinn Richard Branson sem hrapaði á sínum loftbelg í Sahara eyðimörkinni. Piccard vinnur nú að Solar Impulse verkefninu sem gengur út á að fljúga í kringum jörðina á sólarorkuknúinni flugvél árið 2011.

Solar Impulse verkefnið byggir á endurnýjanlegri orku, ofurléttum efnum, nýjustu gerð líþíum rafhlaðna og gríðarlega sparneytnum rafmagnsmótorum. Talið er að samskonar tækni muni umbylta bílaframleiðslu heimsins á næstu árum.

“Ef marka má stærstu bílaframleiðendur heims mun framboð á venjulegum fjölskyldubílum sem geta ekið 150-200 kílómetra á einni rafhleðslu aukast hraðar en flesta órar fyrir á næstu fjórum árum. Þess þróun felur í sér gríðarstórt tækifæri fyrir Ísland til að nálgast 100% sjálfbærni í orkumálum, bæta þar með viðskiptajöfnuðinn, og lækka rekstrarkostnað bifreiða fyrir almenning að minnsta kosti þrefalt.” segir Teitur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Framtíðarorku ehf., skipuleggjanda ráðstefnunnar, sem vinnur að innleiðingu vistvænna samgangna á Íslandi í samstarfi við einkafyrirtæki, sveitarfélög og opinbera aðila.

Margskonar rafmagnsfarartæki verða til sýnis og reynsluaksturs á ráðstefnunni. Þar má nefna rafmagnsbíla, -mótorhjól, -vespur, -reiðhjól og ýmis önnur óhefðbundin rafmagnsfarartæki.

Af öðrum ræðumönnum á ráðstefnunni má nefna Bill Dubé, framleiðanda Killacycle, kraftmesta rafmagnsmótorhjóls heims sem fer úr 0-100 kílómetra hraða á innan við einni sekúndu, Össur Skarphéðinsson, Iðnaðarráðherra, og Þórunni Sveinbjarnardóttur Umhverfisráðherra. Þá mun Geir H. Haarde, Forsætisráðherra hleypa vistakstursátaki ríkisstjórnarinnar af stokkunum ásamt fulltrúum Landverndar, Toyota, VÍS og Orkuseturs og keppa við þá í vistakstri að viðstöddu fjölmenni.

Þátttakendur ráðstefnunnar koma frá 11 löndum heims auk Íslands, þar á meðal Sviss, Japan, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Danmörku, Tékklandi og Kína. Þá hafa alþjóðlegir fjölmiðlar sýnt efni hennar mikla athygli og meðal annars munu Sky News og bandarískir kvikmyndargerðamenn vera á staðnum.

Framtíðarorka ehf, skipuleggjandi ráðstefnunnar, er þekkingarfyrirtæki sem einbeitir sér að ráðgjöf til stjórnenda orku-, samgöngu- og fjármálafyrirtækja. Einnig veitir fyrirtækið ráðgjöf til bæjarfélaga og opinberra aðila og tekur að sér innleiðingu verkefna í vistvænum samgöngum. Framtíðarorka stofnaði til Driving Sustainability ráðstefnunnar á síðasta ári og kom því þá m.a. til leiðar að Toyota Prius tvinnbíl var breytt í fyrsta tengil-tvinnbílinn á Íslandi. Niðurstaða Driving ´07 var skýr: Hlutur rafmagns sem orkugjafa í samgöngum mun aukast hratt á næstu árum og tengil-tvinnbílar koma á almennan markað á árunum 2010-2012. Markmið Framtíðarorku ehf. er að Ísland verði fyrsta land í veröldinni sem er 100% sjálfbært í orkumálum.

Reykjavíkurborg, Landsbanki og Icelandair eru gestgjafar Driving Sustainability ´08. Auk þeirra eru nokkur framsýnustu fyrirtæki Íslands úr bíla- og orkugeiranum bakhjarlar ráðstefnunnar; Toyota, Orkuveita Reykjavíkur, Mitsubishi, Orkusjóður og N1, sem nýverið kynnti áætlanir sínar um uppbyggingu fjölorkustöðva um allt land. Ráðstefnan hefur frá upphafi verið studd af Iðnaðarráðuneyti, Samgönguráðuneyti og Umhverfisráðuneyti auk Sænska Sendiráðsins á Íslandi.

Sjá nánar á driving.is.
Sjá hér á græna kortinu hvaða aðila selja vistvænt eldsneyti á Íslandi og á hvaða stöðum það er fáanlegt.
Myndin er af rafbílnum Reva.

Birt:
16. september 2008
Höfundur:
Framtíðarorka
Tilvitnun:
Framtíðarorka „Raðstefna um rafmagnssamgöngur á Íslandi“, Náttúran.is: 16. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/08/raostefna-um-rafmagnssamgongur-islandi/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. september 2008
breytt: 16. september 2008

Skilaboð: