Noam Chomsky á RIFF í dag
RIFF - Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík kynnir mynd-fyrirlestur með Noam Chomsky í Sal 1 í Háskólabíói í dag þriðjudaginn 28. september, frá kl. 17:00 til 19:00. Um er að ræða fyrirlestur þar sem Chomsky talar í beinni útsendingu á bíótjaldi frá heimabæ sínum, Cambridge í Massachusetts.
Noam Chomsky er bandarískur málvísindamaður, rithöfundur og virkur þátttakandi í stjórnmálum. Hann er prófessor emeritus í málvísindum við hinn virta háskóla Massachussettes Institute of Technology (MIT), þar sem hann hefur unnið frá árinu 1955.
Noam Chomsky hefur gefið út fjölmörg rit og haldið fyrirlestra um málvísindi, heimspeki og stjórnmál. Hann er þekktur fyrir baráttu sína fyrir auknu lýðræði og félagslegu réttlæti. Mikið hefur borið á honum frá því að á Víetnamstríðinu stóð, en hann hefur oft gagnrýnt utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Chomsky er gjarnan álitinn einn helsti hugsuður vinstrisinnaðra í Bandaríkjunum en hann forðast þó sjálfur að nota hugtakið vinstrisinnaður um eigin stjórnmálaskoðanir. Sjálfur lýsir hann sé sem anarkista.
Árið 1968 gaf Chomsky út bókina The Sound Pattern of English ásamt málfræðingnum Morris Halle. Bókin er álitin vera grunnurinn að nútímamálvísindum, þar á meðal hugmyndinni um að tungumálið sé meðfæddur eiginleiki. Síðan þá hefur Chomsky verið talinn einn fremsti málfræðingur og málvísindamaður nútímans.
Samkvæmt Arts and Humanities Citation Index var vitnað í rit Chomskys oftar en í rit nokkurs annars lifandi manns á árunum 1980 til 1992. Hann er áttundi á lista þeirra sem mest hefur verið vitnað til frá upphafi.
Í fyrirlestrinum í Háskólabíói mun Chomsky koma víða við, en yfirskrift hans er „Vonir og væntingar‟. Hann mun meðal annars fjalla um hvað við getum lært af efnahagshruninu á Vesturlöndum, og mun hann fjalla sérstaklega um Ísland í því sambandi.
Umhverfismál verða einnig tekin fyrir, en Chomsky mun meðal annars ræða um framtíðina í orkumálum, mögulega orkugjafa í stað olíu og þær hindranir sem standa í vegi fyrir hugsjónamönnum í þróun hreinna orkugjafa. Þá mun Chomsky fjalla um orku- og umhverfismál á Íslandi, til dæmis hvort besta leiðin fyrir Íslendinga sé að selja álverum ódýra orku, eða hvort Íslendingar ættu að leggja meiri áherslu á að selja þekkingu úr landi, svo fátt eitt sé nefnt.
Það er því ljóst að fyrirlesturinn verður einstaklega áhugaverður fyrir alla þá sem hafa áhuga á helstu áskorunum sem við Íslendingar, og raunar heimsbyggðin öll, stöndum frammi fyrir í umhverfis-, efnahags- og orkumálum.
Stjórnandi fyrirlestrarins verður kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Wintonick sem gerði hina margverðlaunuðu kvikmynd Manufacturing Consent: Noam Chomsky and the Media árið 1992, en myndin verður sýnd á RIFF í ár.
Áður en fyrirlesturinn hefst verður efnt til málþings um m.a. umhverfis-, stjórn og menntamál, og mun það fara fram á íslensku. Þá stendur til að efna til skoðanakönnunar á riff.is þar sem almenningi gefst kostur á að nefna hugsanleg málefni eða spurningar sem Chomsky gæti tekið fyrir.
Fyrirlesturinn er haldinn í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Aðgangur að honum er ókeypis.
Birt:
Tilvitnun:
RIFF „Noam Chomsky á RIFF í dag“, Náttúran.is: 28. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/09/13/noam-chomsky-riff/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. september 2010
breytt: 28. september 2010