Óvenjulegt ástand við Öskju
Í mars s.l. kom í ljós að allur ís var farinn af Öskjuvatn en það er mjög óvenjulegt að slíkt gerist á þessum árstíma. Vegna þess fóru vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands í könnunarflug með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Í ljós kom að vatnið er alveg íslaust og engar augljósar vísbendingar um ástæðu þess. Mjög ólíklegt er að veðurfræðilegir þættir hafi haft þessi áhrif.
Jarðvísindastofnun og Veðurstofan munu fara í leiðangur á svæðið eftir Páska til þess að gera mælingar á svæðinu og koma fyrir tækjabúnaði til frekari mælinga.
Þar sem ekki er að fullu ljóst hvaða atburðarás er í gangi þá vilja lögreglustjórinn á Húsavík og almannavarnadeild ríkislögreglustjórans beina þeim tilmælum til fólks að fara ekki um svæðið að óþörfu. Sérstaklega er varað við því að fólk fari að Víti eða Öskjuvatni vegna möguleikans á að eitraðar gastegundir séu að leita upp.
Vakin er athygli á því að Vegagerðin hefur bannað allan akstur á hálendisvegum norðan Vatnajökuls vegna ástands vega.
Birt:
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Óvenjulegt ástand við Öskju“, Náttúran.is: 4. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/04/ovenjulegt-astand-vid-oskju/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.