Það hafa líklega allir heyrt að umhverfismerktar vörur séu dýrari en aðrar vörur. Ef við lítum á umhverfismerki norðurlandaráðs, Svaninn, hver ætli sé kostnaðurinn við að fá Svaninn á vöruna?

Það er ákveðið umsóknargjald sem þarf að greiða fyrir að sækja um merkið. Sé greitt fyrir umsókn í einu landi þarf ekki að greiða þetta gjald í öðru landi. Þetta gjald er á bilinu 50.000 til 200.000 krónur eftir löndum. Íslensk fyrirtæki sem flytja inn vörur sem eru merktar erlendis þurfa ekki að greiða þetta gjald.
Síðan er einungis greitt gjald af veltu vörunnar hjá þeim aðila sem merkir vöruna Í flestum tilfellum er það hjá heildsala.

Þetta veltugjald er 0,4% af verði vörunnar. Veltugjaldið hefur hins vegar ákveðið hámark á ári sem er um 200 þúsund krónur á Íslandi fyrir hverja vöru. Vara sem kostar 1.000 krónur úr búð, kostar líklega 500 krónur frá heildsala. Veltugjaldið sem er 0,4% er þar af leiðandi 2 krónur sem renna til umsjónaraðila Svansins á Íslandi sem er Umhverfisstofnun. Nú getur vel verið að búðin leggi álagningu á veltugjaldið sem tvöfaldar gjaldið, þ.e. hækkunin vegna umhverfismerkisins verður 4 krónur, en einungis 2 krónur renna til umsjónaraðila Svansins, hinar tvær renna til búðarinnar.

Fyrir suma framleiðendur er þetta svo mikil hindrun að þeir neita að umhverfismerkja vörurnar sínar. Þeir halda hins vegar fram að vörurnar séu jafn góðar en þeir vilji bara ekki borga gjaldið fyrir umhverfismerkinguna.

Hvað erum við neytendur hins vegar að fá fyrir þessi 0.4% og hvaða skilaboð eru framleiðendur að senda þegar þeir segjast bara ekki vilja borga þess ógnarupphæð sem er að hámarki 200 þúsund krónur á ári?

Ég er sem neytandi að kaupa markaðsupplýsingar. Ég er að kaupa þjónustu Svansins sem segir mér að varan hafi farið í eftirlit þriðja aðila, sem hefur sett ákveðnar umhverfiskröfur á vöruna, og varan hefur staðist kröfurnar. Ég veit að kröfurnar frá Svaninum eru settar fram af vísindamönnum á norðurlöndum og ég treysti kröfunum. Fyrir þessa fullvissu borga ég 2-4 krónur (0.4%).

Framleiðandi vörunnar er hins vegar að reyna að segja; “ Mér er annt um að þú borgir ekki meira fyrir vöruna en það sem hún kostar og er að forðast að borga milliðum”. Það sem hann er í raun að gera er að biðja þig að treysta sér þar sem hann vill spara pening. Hann er einnig að segja að gjaldið er svo hátt að hann geti á ódýrari máta sagt þér að varan sé umhverfisvæn. Þar með fellur öll röksemdarfærsla framleiðandans, gjaldið 0,4% að hámarki 200 þúsund krónur á ári fyrir hverja vöru er svo lágt að það dugar ekki einu sinni fyrir auglýsingu í Mogganum.

Sölumaður sem er með 250 þúsund krónur á mánuði kostar um 40 krónur á mínútu (67 aura á sekúndu) með launatengdum gjöldum og öðrum útgjöldum. Með öðrum orðum fyrir vöru sem kostar 1.000 krónur út úr búð, þá hefur sölumaðurinn um 3 til 6 sekúndur til að sannfæra þig um að varan sé umhverfisvæn. Sértu að kaupa sápu sem kostar 300 krónur þá erum við að tala um 1 til 2 sekúndur. Þá er ekki tekið tillit til að tíminn þinn að hlusta á sölumanninn kostar einnig.

Þess vegna eru umhverfismerki ódýr!

Grafik: Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is. Neðri myndin er af fjórum virtustu umhverfismerkjum í heimi þ.e.:Svaninum (fyrir miðið) og hins vegar Evrópublóminu, Bláa englinum og Environmental Choice.

Birt:
26. apríl 2011
Höfundur:
Finnur Sveinsson
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Eru umhverfismerktar vörur dýrar?“, Náttúran.is: 26. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2007/05/26/eru-umhverfismerktar-vrur-drar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. maí 2007
breytt: 14. júní 2014

Skilaboð: