Lífrænir neytendur stofnuðu með sér samtök „Samtök lífrænna neytenda“ í Norræna húsinu þ. 7. mars sl. Mikill mannfjöldi tók þátt í stofnfundinum og um hundrað skráningar voru í framkvæmdanefnd og starfshópasem og hafa flestir tekið til starfa.

Heimasíða hreyfingarinnar lifraen.is var opnuð nú á dögunum en þar er hægt að skrá sig í samtökin, í starfshóp, gerast styrktaraðili og/eða styrkja hreyfinguna með frjálsum framlögum.

Enn geta allir skráð sig í starfshóp og/eða framkvæmdanefnd og tekið þannig virkan þátt í starfinu. Fólk er hvatt til að vera virkir í hreyfingunni sem er ekki stofnuð sem formlegt félag með stjórn og tilheyrandi píramídakerfi, en það er gert til að efla áhrifamátt lífrænna neytenda með gagnsæum og lýðræðislegum vinnubrögðum stærri hóps neytenda en þeirra örfáu sem mynda kjarna klassískra félaga.

Tilgangur hreyfingarinnar er að stuðla að aukinni framleiðslu og neyslu vottaðra lífrænna vara á Íslandi með velferð almennings, búfjár og umhverfisins að leiðarljósi.

Markmið hreyfingarinnar er að efla miðlun upplýsinga um lífrænar afurðir og framleiðslu þeirra, hvetja til aukinnar neyslu á vottuðum lífrænum vörum, vekja athygli á kostum lífrænna aðferða og nauðsyn bættrar meðferðar búfjár, veita markaðinum aðhald um bættar merkingar og aukið framboð lífrænna afurða, og stuðla þannig að heilbrigðum lífsstíl og heilnæmu umhverfi.

Sjá nánar um Samtök lífrænna neytenda á heimasíðu hreyfingarinnar www.lifraen.is.

Sjá einnig Facebook síðu Samtaka lífrænna neytenda.

Grafík: Lifraen.is. Pálmi Einarsson hjá designhouseone gaf vinnu sína bæði við gerð merkis og vefs Samtaka lífrænna neytenda.

Birt:
9. apríl 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Samtök lifrænna neytenda eignast heimasíðu“, Náttúran.is: 9. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/09/samtok-lifraenna-neytenda-eignast-heimasidu/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: