Söfnun og meðferð blágresis
Blágresi [Geranium sylvaticum]
Lýsing: Jurtin er fjölær vex upp af skriðulum jarðstöngli, 20-50 cm há. Blöðin eru stór handskipt, blómin oftast fjólublá. Finnst helst í skjóli við kjarr eða í hvömmum, lautum og snjódældum um allt land. Meðan jurtirnar eru óblómgaðar er hægt að villast á blágresi og sóley vegna handskiptu blaðanna. Flipar sóleyjarblaðanna skerðast dýpra og eru sepóttir en blöð blágresisins eru fremur tennt.
Árstími: Rétt fyrir blómgun og í blóma í júní-júlí.
Tínsla: Vegna lítillar rótar þarf að nota mjög beittan hníf svo jurtin upprætast ekki við tínslu. Best er að tína í gisinn poka og alls ekki troða í pokann. Blöðin mega ekki vera farin að roðna þegar þau eru tínd.
Meðferð: Blágresi má ekki þvo. Þurrka ber jurtina svo fljótt sem auðið er eftir tínslu. Blágresi er sérlega hætt við skemmd sé því pakka þétt, því það hitnar mjög fljótt í því vegna sterkra sýra sem það inniheldur. Þarf góða dreifingu og daglegan snúning við þurrkun. Góð loftræsting er nauðsynleg. Blöðin roðna í þurrkun ef þau eru skemmd. Gott er að þurrka blágresi í knippum, en þá má ekki setja nema 3-4 plöntur í hvert knippi.
Ljósmynd: Blágresi, Guðrún Tryggvadóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Erlingur Filippusson „Söfnun og meðferð blágresis“, Náttúran.is: 21. júní 2013 URL: http://nature.is/d/2010/05/28/sofnun-og-medferd-blagresis/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. maí 2010
breytt: 1. janúar 2013