Nordisk KulturfondNáttúran.is fékk á dögunum styrk frá Norræna menningarsjóði Norrænu ráðherranefndarinnar til að vinna í samvinnu við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík (RIFF) að því að sýna kvikmyndir sem hafa umhverfið að viðfangsefni á hátíðinni í haust, auk þess að standa fyrir uppákomum þeim tengdum.

„Til þess að halda uppi samræðum um þær öru breytingar sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag, á sviði loftslagsmála og annarra umhverfistengdra viðfangsefna, vill Náttúran.is í samvinnu við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík standa fyrir sýningum á kvikmyndum sem fjalla um þessi mikilvægu málefni, auk þess sem við munum halda málþing sem gefur fólki kost á að eiga samræður um málefni sem tengjast inntaki myndanna. Umhverfisvitund er mál málanna í dag en skjótar og auðveldar lausnir eru ekki í sjónmáli. Með því að sýna 4-8 kvikmyndir, bæði leiknar myndir og heimildamyndir sem hafa „Jarðarvitund“ að meginý ema, vill Náttúran.is auka samræðurnar manna á milli um stöðu umhverfisins og okkar jarðarbúa. Þátttaka í ytri viðburðum á við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina er nýtt fyrir okkur en er þó beint framhald af því starfi sem við sinnum dags daglega. Við vonumst til að með samvinnu við RIFF aukist vægi skilaboðanna sem við getum síðan fylgt eftir á vef Náttúrunnar á ýmsa vegu. Alþjóðlega kvikmyndahátiðin í Reykjavík er einn allra vinsælasti árlegi viðburður  landsins og dregur auk þess að sér fjölda erlendra ferðamanna og því erum við afar þakklát fyrir að aðstandendur RIFF hátíðarinnar hafi strax haft eins mikinn áhuga á málefninu og við“.
Af vef Norrænu menningarnefndarinnar vegna úthlutunarinnar.

Birt:
14. maí 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is fær styrk úr Norrænu menningarsjóðnum“, Náttúran.is: 14. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/14/natturan-faer-styrk-fra-norraena-menningarradinu/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. maí 2010

Skilaboð: