Njóli
Sú tilgáta hefur verið sett fram, að njólinn hafi verið fluttur inn sem matjurt frá Noregi snemma á öldum, en þó kann hann að hafa fundið sér leið hingað sjálfur. Hann heldur sig þó helst kringum mannabústaði og síður á víðavangi og vildu víst ýmsir sem berjast við hann, að hann hefði aldrei komið.
Mörgum brá í brún þegar Ingólfur Guðnason garðyrkjumaður setti njóla í urtagarðinn í Skálholti þar sem hann safnaði þeim jurtum, sem hann telur að hafi verið nýttar eða ræktaðar á staðnum áður fyrr. Menn skildu varla að nokkur maður flytti viljandi til sín njóla og það upp að aðaldyrum en Ingólfur mun kunna ráð til að hemja hann. Hafi maður þolinmæði og séu stönglarnir klipptir áður en fræin dreifa sér er hægt að halda honum í skefjum.
Stöngullinn vex hátt og fræin verða áberandi. Hann skortir það tvennt, sem gerir plöntur fyrst og fremst vinsælar því eiginlegum blómum tekur maður aldrei eftir og hann ilmar ekki. Upphaflega hét hann jóli og n-ið lenti þarna framan við, kannski komið frá samsetta orðinu hvannjóli. Þegar plöntur taka til við ótímabæra fræmyndun er sagt að þær hlaupi í njóla. Njólinn er líka kallaður heimula eða heimilisnjóli eða fardagagras. Fardagurinn er 14. maí og það stendur heima, að þá er hann farinn að spretta nægilega til að hægt sé að nota hann enda yngstu blöðin best. Nafnið þolinmæða er gamalt og þessar mörgu orðmyndir benda til þess að hann hafi verið töluvert mikið notaður.
Áður fyrr hefur njóli varla verið borðaður hrár, til þess er bragðið of sterkt, heldur gagnast hann fremur sem káljurt í súpur og stöppur. Þó hef ég fundið uppskrift að njólasalati hjá Helgu Sigurðardóttur, sem stýrði Húsmæðrakennaraskólanum og skrifaði margar kokkabækur. Hún tekur mjög ung njólablöð, sker þau í ræmur og blandar út í súran rjóma. Frægur er silungur soðinn í njólablöðum á endurvöktum 17. aldar matseðli í Skálholti. Matráðskonan Brynja Ragnarsdóttir hafði lært að steikja silung vafinn njóla yfir kvisteldi þegar hún var krakki. Njólinn er af súruætt og bragðið er í senn beiskt og leiðir út í súrt. Það er sérkennilegt og fer afbragðsvel með fiski. Á hverju vori er sjálfsagt að gera njólajafning og hafa með soðnum fiski, úr sjó eða vatni eða saltfiski ef vill. Björn í Sauðlauksdal minnist þó aðeins á að sjóða hann til bragðbætis með kjöti. Þegar ég fór að spyrjast fyrir kom í ljós að njólajafningur var hafður með saltketi á Laugarbökkum í Ölfusi. Þetta var gert á hverju vori áður en grænkálið, sem síðan tók við, var orðið nægilega sprottið. Sauðlauksdalsbændur vildu meina að njólabragðið færi einkar vel með feitu kjöti.
Hefðbundinn jafningur með njóla
Takið 2 msk af smjöri eða olíu og hitið varlega í potti. Síðan er 2 msk af heilhveiti eða fínu spelti hrært í en ekki látið brúnast. Potturinn tekinn af eldinum meðan 1 bolla af mjólk er bætt út í og hrært svolítið áður en potturinn er settur yfir aftur. Hrært allan tímann meðan sýður upp og þykknar. Saltað ögn og piprað eftir smekk. Hnefafylli af ungum fínt söxuðum njólablöðum er þá bætt út í sósuna og blöðin látin soðna í nokkrar mínútur. Svo má þynna með mjólk eða rjóma ef það hentar betur. Hægt er auðvitað að hafa spínat eða grænkál í svona jafning og fara eins að. Sé njólinn sleginn eða klipptur myndar hann ný blöð og þannig er hægt að fá fersk og góð blöð fram eftir sumri. Njólinn er afar sterkbyggð planta. Hans er getið í flestum jurtalækningabókum bæði á þann veg að hann hreinsi, sé hann tekinn inn, og líka dugi hann vel við útvortis sárum og húðertingu.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Grafík: Hildur Hákonardóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Njóli“, Náttúran.is: 22. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2007/11/06/njli/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 6. nóvember 2007
breytt: 22. júní 2015