Skjaldborg slegið um Þórunni
Síðan fréttir af uppstokkun í ríkisstjórn Íslands voru boðaðar í fyrradag hafa náttúruverndarsinnar, félög og grasrótarsamtök á náttúru- og umhverfisverndarsviði slegið skjaldborg um sitjandi umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttir en hún hafði verið nefnd sem einn af þeim ráðherrum sem hugsanlega yrði hrókerað í tilraun ríkisstjórnarinnar til að halda velli í stöðugt sterkari mótbyr vegna stöðunnar og þeirri ringulreið og ráðaleysi sem ríkir í þjóðfélaginu.
Verði Þórunni Sveinbjarnardóttir, af öllum ráðherrum sitjandi ríkisstjórnar, fórnað í hrókeringum þeim sem boðaðar hafa verið, er það rétt sem sagt er um stjórnvöld, að þau séu gersamlega siðblind og það djúpt sé á spillingunni að nú ætti ríkisstjórnin tafarlaust að segja af sér og biðja þjóðina afsökunar á getuleysi sínu.
Þórunn hefur legið undir þeirri sök að fara yfir strikið með því að fara að landslögum og gera kröfu um heidstætt umhverfismat fyrir álver á Bakka. Bakkabræður fyrir norðan vilja nú kenna Þórunni um að stóriðjuöflin hafi brugðist þeim þegar kreppa tók að. Nokkuð sem náttúruverndaröflin hafa árum saman reynt að gera öllum skiljanlegt þ.e. að stóriðjuöflunum stendur nákvæmlega á sama um náttúru Íslands og þjóðina alla, afkomu hennar og framtíð. Það eina sem þau hafa haft áhuga á er að nýta sér ódýra orku, spillt stjórnkerfi og einfaldleika landans til að gera það sem þeim sýnist og græða vel á.
Staðreyndin er þó sú að Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur næman skilning á nauðsyn verndunar umhverfisins og hún er vissulega nokkuð næmari en ráðherra sem setið hafa í hennar stól á undanförnum árum og því er mikilvægt að hún fái frið til að klára þau verkefni sem hún hefur byrjað á.
Skildi þjóðin síðan fá að kjósa um nýja stjórn og ný r umhverfisráðherra kemst í stólinn úr öðrum flokki í gegnum lýðræðislega kosinn nýjan meirihluta má vel vera að enn betri umhverfisráðherra finnist til starfsins en þangað til er sátt um að hún sitji og fái að vinna sín störf en verði ekki leidd á bálköstin fyrir sakir annarra.
Myndin er af Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skjaldborg slegið um Þórunni“, Náttúran.is: 17. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/16/skjaldborg-slegio-um-thorunni/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. desember 2008
breytt: 17. desember 2008