Gervihnattamyndir í Afríkuatlas SÞ sýna með óyggjandi hætti áhrif mannsins á náttúrufar í álfunni á síðustu fjórum áratugum. Allt efni atlassins má nálgast ókeypis á netinu.

Þróunarstofnun Sameinuðu Þjóðannna (UNDP) hefur tekið saman umfangsmikinn atlas sem sýnir hnignun náttúrufars í Afríku með samanburði á gervihnattamyndum. Atlasinn var kynntur fyrr í vikunni á ráðstefnu umhverfisráðherra Afríkuríkja í Jóhannesarborg í Suður-Afríku.

Atlasinn er um 400 síður að lengd og má finna í honum yfir 300 gervihnattamyndir sem teknar eru í hverju einasta Afríkuríki á yfir 100 ólíkum stöðum. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að bera saman ástand umhverfisins "fyrir og eftir" afskipti manna, í sumum tilfellum á 35 ára tímabili.

Áhrif Darfur-átakanna

Sum náttúrufyrirbærin eru vel þekkt og rannsökuð, svo sem hop jökla á Kilimanjaro-fjalli í Tanzaníu, hæsta fjalli Afríku, uppgufun Chad-vatns og minnkandi vatnshæð í Viktoríuvatni. Aðrar náttúrufarsbreytingar í álfunni birtast hins vegar í fyrsta sinn með myndrænum hætti í Atlasinum, en þar á meðal er hvarf jökla í Rwenzori-fjöllum í Úganda, sem minnkað hafa um helming frá 1987 til 2003.

Af öðrum breytingum sem nefndar eru í fréttatilkynningu UNDP eru víkkandi svæði skógareyðingar í kjölfar vegalagningar í Kongó síðan 1975; gereyðing stórra hluta Suður-Malagasy skógarins á Madagaskar á árunum 1973 til 2003 vegna landbúnaðar og eyðing trjáa og runna í viðkvæmu vistkerfi Jebel Marra hæðanna í Vestur-Súdan í kjölfar fólksfjölgunar sem er til komin vegna flóttamannastraums frá Darfur-héruðunum.

Vöxtur borga er áberandi á gervihnattamyndunum, en til dæmis má sjá hvernig Dakar, höfuðborg Senegal, hefur á hálfri öld blásið út frá því að vera lítill þéttbýliskjarni á ysta nest Cap Vert-tanga yfir í 2,5 milljón manna stórborg sem þekur allan tangann.

Vá loftslagsbreytinga
Rakið er í fréttatilkynningu UNDP að jákvæður árangur hafi náðst í sumum málefnum, svo sem í bættum vatnsbúskap og hreinlæti. Þrátt fyrir það virðist útlitið almennt ekki bjart í umhverfismálum í Afríku, þar sem um 300 milljónir manna búa þegar við vatnsskort og búist er við að sú tala hækki um þriðjung fram til ársins 2050.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru einn helsti drifkraftur náttúrufarsbreytinga í Afríku og munu hafa sívaxandi áhrif á næstu áratugum, þó svo að Afríkumenn séu aðeins ábyrgir fyrir um 4% af koltvísýringslosun heims. Áætlaður kostnaður Afríkumanna við að laga sig að afleiðingum loftslagsbreytinga er talinn vera á milli 5 og 10% af þjóðarframleiðslu.

Efni atlassins er frjálst til afnota öllum almenningi og má hlaða niður myndum og köflum úr bókinni hér.

Birt:
18. júní 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Umhverfisröskun álfunnar myrku“, Náttúran.is: 18. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/18/umhverfisroskun-alfunnar-myrku/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: