"Ég geri fastlega ráð fyrir því að við kærum þetta," segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Hann fagnar orðum Aðalheiðar Jóhannsdóttur í Fréttablaðinu í gær, en hún heldur því fram að byggingarleyfi sem sveitarfélögin Reykjanesbær og Garður hafa veitt Norðuráli vegna álvers í Helguvík, sé byggt á gölluðu áliti Skipulagsstofnunar. Álitið geti því ekki verið grundvöllur leyfisins.
Segist Aðalheiður telja að umhverfisverndarsamtök geti kært ákvörðun sveitarfélaganna til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Krefjast megi að framkvæmdir við álversbyggingu verði stöðvaðar á meðan.
Aðalheiður er dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Bergur segir hana eitt helsta kennivald landsins í umhverfislöggjöf.
"En í allri góðri stjórnsýslu myndu sveitarfélögin þó draga leyfið sjálfviljug til baka, falli úrskurður ráðherra okkur í vil," segir hann og vísar til eldri kæru Landverndar til umhverfisráðherra.