Framkvæmdastjóri Landverndar gerir ráð fyrir því að kæra ákvörðun sveitarfélaga um að gefa út byggingarleyfi, enda byggi leyfið á gölluðu áliti. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar bíður þessarar "árásar" frá Landvernd. Segist ýmsu vanur.

"Ég geri fastlega ráð fyrir því að við kærum þetta," segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Hann fagnar orðum Aðalheiðar Jóhannsdóttur í Fréttablaðinu í gær, en hún heldur því fram að byggingarleyfi sem sveitarfélögin Reykjanesbær og Garður hafa veitt Norðuráli vegna álvers í Helguvík, sé byggt á gölluðu áliti Skipulagsstofnunar. Álitið geti því ekki verið grundvöllur leyfisins.

Segist Aðalheiður telja að umhverfisverndarsamtök geti kært ákvörðun sveitarfélaganna til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Krefjast megi að framkvæmdir við álversbyggingu verði stöðvaðar á meðan.

Aðalheiður er dósent við lagadeild Háskóla Íslands og Bergur segir hana eitt helsta kennivald landsins í umhverfislöggjöf.

"En í allri góðri stjórnsýslu myndu sveitarfélögin þó draga leyfið sjálfviljug til baka, falli úrskurður ráðherra okkur í vil," segir hann og vísar til eldri kæru Landverndar til umhverfisráðherra.

Í kæru þeirri er þess krafist að álit Skipulagsstofnunar verði gert ógilt og að fram fari lögformlegt umhverfismat á framkvæmdunum í heild sinni. Kæran bíður úrskurðar ráðherra.

En Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir bæjarfélagið halda áfram með starf sitt. Aðalheiður gagnrýni helst tvennt; línulagnir og losunarkvóta.

Árni kveður útfærslu línulagna á lokastigi. Losunarkvótana hafi Norðuráli áður verið tilkynnt um að fyrirtækið ætti að sækja um seinna, þar sem verkefni þess væri ekki komið nógu langt.

"Og þá er eðlilegt að þegar verkefnið er komið lengra að hægt sé að sækja um losunarkvóta," segir Árni.

Árni segir að álit Aðalheiðar hafi því engin sérstök áhrif á framkvæmdirnar. "Við höfum séð önnur álit frá öðrum lögmönnum og þeir hafa verið annarrar skoðunar. En ef Landvernd ætlar að halda þessum árásum sínum á okkur áfram, þá bara velur hún það. Við erum ýmsu vön."

Birt:
17. mars 2008
Höfundur:
Klemens
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Klemens „Ákvörðunin líklega kærð af Landvernd“, Náttúran.is: 17. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/17/akvorounin-liklega-kaero-af-landvernd/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: