Draumalandsins í kvikmyndaformi hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og á forsýningu myndarinnar gærkveldi var Háskólabíó pakkfullt.

Kvikmyndin Draumalandið er allt öðruvísi en bókin enda var ekki við öðru að búast. Draumalandið er heimildamynd þar sem efni bókar er tekið úr hugarfylgsum höfundarins Andra Snæs Magnasonar og fært inn í raunveruleikann. Verkið, sem áður var hreint hugverk eins manns, Andra Snæs, er orðið höfundarverk fjölda manns.

Styrkleiki myndarinnar felst í sparlegu efnisvali, það er ekki vaðið úr einu í annað í þessari mynd þó af nógu hafi verið að taka heldur fá myndrammarnir, flugið yfir landið, viðtölin, myndskeiðin gömlu og sögusamhengið að njóta sín og tilfinningar áhorfandans fá þannig að þroskast og „vera með“. Þó víða sé staldrað við og hugleitt er myndin á engan hátt leiðinleg eða langdregin og það má jafnvel fullyrða að myndin sé alls ekki tilbúin því sögunni er ekki lokið eins og við öll vitum. Myndin heldur áfram að virka og spila á tilfinningarnar þegar heim er komið og hugleiðingar um hvað framundan sé er ekki hægt að víkja til hliðar.

Uppgjör við fréttamiðla og stjórnmálamenn

Það sem eftir stendur er verk sem allir verða að fá tækifæri til að sjá, ekki sþst verða allir íslendingar að sjá myndina fyrir 25. apríl á þessu ári. Draumalandið setur okkur íslendinga í ljós hins auðkeypta sveitalubba sem hefur verið rækilega tekinn í ........ Nota bene ekki aðeins af erlendum stóriðjurisum heldur af okkar eigin stjórnmálamönnum, bæjarstjórum og ekki sþst fréttamönnum og konum sem hjálpuðu (og hjálpa enn) til við að láta allt hljóma eins og þetta væri allt saman eðlileg og uppbyggileg þróun sem bæri að gleðjast yfir. Já góðu landar, við höfum verið gerð að algerum fíflum á síðustu árum, það er staðreynd sem kvikmyndin Draumalandið nær að segja frá á auðmjúkan og syrgjandi hátt.

Það er okkar að móta Draumalandið héðan í frá!

Mynd: Aðstandendur myndarinnar; Sigurður Gísli Pálmason, Andri Snær Magnason og Þorfinnur Guðnasons heilsa gestum í fordyrinu fyrir forsýninguna. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
8. apríl 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Draumalandið okkar allra“, Náttúran.is: 8. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/08/draumalandio-okkar-allra/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 10. apríl 2009

Skilaboð: