Dagana 23.–26. janúar 2009 stendur Fuglavernd fyrir garðfuglaskoðun sem er nú einn af þeim árvissu viðburðum sem félagið stendur fyrir. Landsmenn eru hvattir til þess að taka þátt í garðfuglaskoðun 2009, sérstaklega þeir sem gefa fuglum í görðum sínum. Þeir Íslendingar sem gefa fuglum að vetri til teljast örugglega í þúsundum. Markmið garðfuglaskoðunar er að fá sem flesta til þess að skoða fugla í görðum sínum og vekja áhuga á fuglaskoðun og hversu auðvelt það er að stunda hana. Fá fólk til þess að fóðra fugla, vekja áhuga á fuglum og töfrum þeirra. Ennfremur er markmiðið að afla upplýsinga um fugla í görðum landsmanna, hvaða tegundir eru til staðar og í hve miklu magni og á tímum loftslagsbreytinga.

Nú þegar harðnar á dalnum hjá smáfuglunum hvetur Fuglavernd landsmenn til þess að gefa fuglum. Það er uppbyggjandi tómstundargaman og þannig má einnig aðstoða þá garðfugla í lífsbaráttunni. Fuglavernd hefur gefið út veglegan fræðslubækling um garðfugla. Þar er fróðleikur og myndir af fuglum sem sækja í garða, hvernig á að fóðra þá og hvaða tré henti best til þess að laða að fugla í garða. Félagar í Fuglavernd hafa fengið þennan bækling og nýir félagar fá hann sendan heim.

Upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra má finna á Garðfuglavefnum. Þar er einnig hægt að senda inn niðurstöður garðfuglaskoðunar.

Hér er hægt að sækja eyðublað og frekari upplýsingar um Garðfuglaskoðun 2009.

Ljósmynd: ©Örn Óskarsson.
Birt:
Jan. 21, 2009
Höfundur:
Fuglavernd
Tilvitnun:
Fuglavernd „Garðfuglaskoðun 23. til 26. janúar 2009“, Náttúran.is: Jan. 21, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/11/garofuglaskooun-23-til-26-januar-2009/ [Skoðað:Nov. 8, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: Feb. 11, 2009

Messages: