Kolefnismarkaðir Evrópusambandið vill að þróunarlönd taki meira frumkvæði í samdrætti

Framtíð Clean Development Mechanism-verkefna (CDM) og mikillar verslunar með losunarheimildir sem þau hafa gefið af sér kann að vera í hættu, ef marka má yfirlýsingar Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Carbon Positive.

Flest lönd sem taka þátt í CDM-verkefnum eru innan Evrópusambandsins, en framkvæmastjórn þess hefur gefið til kynna stefnubreytingu í þá veru að leggja minni áherslu á kolefnisjöfnun og meiri áherslu á að þróunarlönd dragi sjálf úr eigin kolefnislosun með beinum hætti.

CDM er eitt helsta markaðstækið sem notað er í baráttunni við loftslagsbreytingar, en það er hluti af sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar. Það býður fjárfestum kolefnislosunarheimildir, svokallaðar CER-heimildir (Certified Emissions Reduction), í skiptum fyrir að fjárfesta í verkefnum í þróunarlöndum sem draga úr losun í jafn miklum mæli.

Vaxandi markaður
Virði CDM-markaðarins hefur farið sífellt vaxandi, og nam 12 milljörðum evra árið 2007, samkvæmt mati Point Carbon. Um eitt þúsund CDM-verkefni eru skráð og önnur tvö þúsund eru í skráningar- og matsferli og búist er við að þau skapi um tvo milljarða CER-losunarheimilda fyrir árið 2012, að mati umhverfisstofnunar SÞ, UNEP.

Framhald og vöxtur CDM eftir 2012 er hins vegar háður því að þjóðir heims nái samkomulagi um fyrirkomulag loftslagsmála eftir 2012, en viðræður um það hafa staðið yfir síðan á Bali-fundinum í desember síðastliðnum. Nú virðist sem Evrópusambandið ætli að draga úr stuðningi sínum við CDM.

Helstu ástæður þess að sambandið vill ekki lengur veðja á CDM eru, eftir því sem segir í frétt Carbon Positive, annars vegar að það vill sjá meiri beinan samdrátt heima fyrir frekar en að kolefnislosun sé jöfnuð með samdrætti annars staðar, og hins vegar að sambandið vill setja þrýsting á þróunarlönd að leggja meira af mörkum í eigin samdrætti þegar kemur að alþjóðasamningum.

Þróunarlönd geri betur

Einnig virðist sem vaxandi áhyggjur af því að hlýnun jarðar sé að eiga sér stað hraðar en áður var talið hafi átt þátt í stefnubreytingunni. Yvon Slingenberg, yfirmaður kolefnisverslunar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í vikunni að nú væri kominn tími til að þróunarlönd tækju þátt í baráttunni með samdrætti í losun heima fyrir, frekar en að reiða sig alfarið á jöfnunarverkefni sem evrópsk fyrirtæki fjármagna.

Slingenberg sagði að þróunarlönd gætu ekki haldið áfram að draga aðeins úr losun sinni í gegnum jöfnunaraðgerðir ef ná ætti nauðsynlegum heildarsamdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu í tæka tíð. Þetta kom fram í máli hans á ráðstefnunni Carbon Market Insights í Kaupmannahöfn, og bætti við að þessi lönd ættu að koma á fót sínum eigin kolefnismörkuðum frekar en að nota aðeins CDM.

Yvo de Boer, yfirmaður rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, lýsti áhyggjum sínum af þessari afstöðu framkvæmdastjórnar ESB og benti á að CDM verkefni væru eina alvöru fjármagnið sem væri í boði til að draga úr losun í löndum sem eru í hraðri efnahagsýróun.

Mynd frá Viðskiptablaðinu: Jarðhiti í Kený a.
Með því að virkja þennan jarðhita og sýna fram á að nýtingin dragi úr notkun kolefnislosandi orkulinda á borð við kol geta vestræn fyrirtæki öðlast losunarheimildir sem eru framseljanlegar á evrópska kolefnismarkaðinum. Slík verkefni nefnast CDM og hafa verið í mikilli sókn á síðustu árum, en nú stefnir í að Evrópusambandið dragi úr stuðningi sínum við þau.

Birt:
17. mars 2008
Tilvitnun:
Viðar Þorsteinsson „Óljós framtíð kolefnisjöfnunar í þróunarlöndum“, Náttúran.is: 17. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/17/oljos-framtio-kolefnisjofnunar-i-throunarlondum/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: