Öðruvísi „gras-flötur“ - Villigarðurinn
Ef þú hefur ákveðið að setja upp fallega og græna grasflöt til þess að geta tölt á eftir sláttuvélinni vikulega eða oftar, ættirðu að fá að vita að hægt er að hafa annars konar flöt, ekki síður fallega og sem þarf ekki að slá.
Í staðinn fyrir grasfræl er sáð öðru fræi af lágvöxnum plöntum sem þola átroðning. Kannski ekki eins mikinn en þola þó vel að gengið sé um.
Blóðberg [Thymus arcticus] er ein af þessum plöntum og þá þarf nú undirlagið að vera gróft og sendið. Ímyndaðu þér flöt sem er dökkgræn og skiptir svo um lit og verður bleik og fjólublá. Svo er hún sígræn í ofanálag. Enginn gulur litur á haustin og ekkert slabb á vorin. Og þegar stigið er á hana gýs upp höfugur ilmur blóðbergs sem kitlar lyktarkirtlana.
Hvítsmári [Trifolium repens] er önnur planta sem hægt er að þekja með. Ljósgrænn og fínlegur og þegar hann blómstrar verður flötin kremhvít og ilmurinn fyrir vitin. Hann er þó öllu viðkvæmari en blóðbergið svo hægt er að hafa stiklur til að ganga á. Það er svo bónus að smárinn framleiðir köfnunarefni sem ný tist öðrum plöntum.
Helluhnoðri [Sedum acre] getur myndað stóra flekki og jafnvel heila flöt ef undirbúningurinn er réttur. Hann er ljóselskur og þolir ekki vatn á rótunum svo að undirlagið þarf að vera möl. Þá verður flötin sterkgul þegar hnoðrinn blómstrar. Hann þolir alls ekki að gengið sé á honum svo þú verður að hafa stiklur eða stíga.
Gulmaðra [Galium verum] er gullfalleg og vel mætti hugsa sér að prófa hana en ekki hef ég trú á að hún blómstri mikið ef að gengið er á henni.
Ef þú vilt koma þér upp svona flöt verðurðu að vinna undirvinnuna af kostgæfni. Þú verður að losa þig við allt plöntukyns sem vex þar sem þú ætlar að hafa flötina og vinna jarðveginn á gott dýpi. Þá plantarðu í yfirlagið og hefur um þrjátíu sentimetra á milli planta. Eftir um tvö ár ættu plönturnar að hafa náð því að vaxa saman í eina fallega heild. En þú getur búist við að fræ berist í flötina með dýrum eða vindi svo það getur verið nokkur vinna að halda henni “hreinni” þar til það sem þú hefur plantað hefur algerlega þakið flötina svo aðrar tegundir eigi erfiðara uppdráttar. Jafnvel þá geturðu búst við innrás.
Sortulyng [Arctostapylos uvaursi] er í erlendum bókum talin góð sem “groundcover” eða þekjuplanta en ekki sé ég það nú beint fyrir mér á flöt þótt það geti verið ágætt undir trjám og jafnvel runnum. En fallegt er það. Þá eru títuber [Vaccinium vitis-idaea] sett í sama flokk en einhvern veginn er mér líka fyrirmunað að ímynda mér þau undir fótum þeirra sem leið eiga um flötina.
Ein er sú planta sem sennilega er kjörin í svona flöt. Hún hefur líka þann kost að hún kemur sjálf og ekki þarf að hafa áhyggjur af því að hún hverfi. Með því að nota hana losnar maður við a.m.k. eitt vandamál. Þetta er nokkuð falleg gulblómstrandi planta sem er algeng um allt land. Hún heitir skriðsóley [Ranunculus repens]. Það skyldi þó ekki koma í ljós ef ætti að fara að rækta hana að erfitt yrði að halda í hana.
Ýmsar erlendar tegundir eru fáanlegar sem “þekjuplöntur”. Ekki er nú kominn mikil reynsla á þær hér. Þó finnst mér líklegt að einhverjar þeirra gætu gengið hér jafnvel þótt þær séu vanari meiri hitum og hagstæðari skilyrðum. Tilraunir með þær bíða eftir þér! Hinsvegar ef þú vilt verða þér úti um hæfilega líkamsrækt með því að tölta á eftir, eða ýta á undan þér, sláttuvél og koma þér upp “ekta” grasflöt sem þú þarft að slá með reglulegu millibili, skaltu búa þig undir svolitla vinnu. Það gildir það sama um undirvinnuna við grasflöt og undirvinnuna við illgresið. Þú átt eftir að bölva hátt og í hljóði ef þú ert svo óheppinn að vera með skriðsóley. Þú þarft að losa þig við allt plöntukyns þar sem grasið á að vaxa. Það getur þú gert á þrennan hátt, með eitri, með því að reyta og með því að breiða svart plast í nokkrar vikur á blettinn þar sem flötin á að vera. Prívat og persónulega mæli ég ekki með eitri. Það er minnsta vinnan að breiða plast yfir og það er umhverfisvænt svo framarlega sem þú tekur það aftur.
Þegar undirvinunni er lokið skaltu bera vel á, helst einhvern lífrænan áburð sem laus er við illgresisfræ eins og þörungamjöl eða hænsnaskít. Svo sáir þú. Það er hægt að velja um nokkrar fræblöndur en það er ekki endilega víst að þær henti þér svo þú skalt lesa þér til og ákveða hvernig gras þú vilt fá. Sumt gras er grófara en annað og sumt er fljótara til en skammlífara. Fræblöndur eru samsettur með tilliti til þess. Oft er uppistaðan fræ af einhverri tegund sem er fljót til en skammlíf og hlífir aðaltegundinni sem kemur ekki almennilega í ljós fyrr en hún er búin að ná yfirhöndinni eftir svona tvö, þrjú ár. Grasið fjölgar sér nefnilega með neðanjarðarrenglum ef það nær ekki að blómstra og mynda fræ. Og hvaða gras gerir það sem er slegið reglulega?
Dauðhreinsuð mold
Margir trúa því að betra sé að dauðhreinsa moldina þegar sáð er. Í raun og veru er þessu öfugt farið. Rannsóknir hafa sýnt að smáplöntur sem ræktaðar eru í moltublandaðri mold eru heilbrigðari en þær sem ræktaðar eru í dauðhreinsaðri mold. Lífverur sem lifa á sveppum drepast og sveppagró eru allstaðar. Þau lenda í moldinni og vaxa ef skilyrðin eru rétt. Auk þess hefur hiti áhrif á ýmis næringarefni svo það getur komið upp misvægi í næringarefnaupptöku ungplantna.
Soðning moldar
Ef þú ætlar að sjóða eða baka mold, skaltu senda aðra fjölskyldumeðlimi í burtu þann daginn. Þú átt eftir að verða undrandi á þeim fnyk sem fyllir húsið. Það er ekki nóg að opna gluggan því lyktin loðir lengi við. Þér á eftir að finnast þú vera með hana í nösunum í nokkra daga á eftir. Þessvegna er best að svona svona moldarsuðu utandyra. Það geturðu gert með góðum gasprímus. Reyndar er best að sótthreinsa mold með því að hafa hana í safnhaugnum því að þegar hitnar í honum getur hitinn farið upp í allt að 80 C og kraumað lengi. Einnig er hægt að nota blessað hitaveituvatnið. Það gera garðyrkjubændur þegar þeir gufusjóða gróðurhúsin sín til að sótthreinsa þau.
Blóm úr náttúrunni
Vegkantarnir eru næstum einu staðirnir sem mér finnst að óhætt sé að taka blóm úr náttúrunni til flutnings í garða. Maður gæti annars óvart verið að fjarlægja síðasta eintakið af einhverju blómi á tilteknu svæði. Í flestöllum tilfellum er betra að kaupa blómin í gróðrastöðvum eða sá fyrir þeim. Þó er rétt að reyna að bjarga þeim plöntum og flytja í garða sem ekkert bíður annað en gröfukjafturinn eða þtutönn.
Úr bókinn „Villigarðurinn“ eftir Þorstein Úlfar Björnsson, úr kaflanum „Öðru-vísi gras-flöt“.
Útgefandi Búsna býflugan.
Efsta myndin er af blóðbergi, önnur að ofan af hvítsmára, þriðja að ofan er af helluhnoðra. Næstneðsta myndin er af gulmöðru og sú neðsta af sortulyngi. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „Öðruvísi „gras-flötur“ - Villigarðurinn“, Náttúran.is: 8. maí 2015 URL: http://nature.is/d/2007/06/11/ruvsi-gras-flt-villigarurinn/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. júní 2007
breytt: 8. maí 2015