Garðurinn Skrúður á Núpi í Dýrafirði var formlega stofnaður þ. 7. ágúst 1909 og varð því 100 ára á þarsíðasta ári. Upphaflegur stofndagur Skrúðs var ekki valinn af handahófi en þ. 7. ágúst 1859 voru 150 ár liðin frá því að fyrstu kartöflurnar voru settar niður í Sauðlauksdal af séra Birni Halldórssyni*. Ári áður hafði kartöfluuppskera heppnast á Bessastöðum, en Hastfer barón á heiðurinn af þeim merka áfanga ræktunarsögunnar.

Garðinum hafði verið lítið sinnt eftir 1980 og hnignaði þá fljótt. Árið 1992 var stofnuð nefnd til viðreisnar Skrúðs og garðurinn síðan endurvígður með viðhöfn árið 1996. Skrúði er nú vel við haldið og hrein unun að sækja garðinn heim.

Nafnið „Skrúður“ mun vera fyrirmynd orðsins „skrúðgarður“. Í byrjun var garðurinn 2000 fermetrar að stærð en steingarður umlykur garðinn „lítilsháttar undirstöður garðveggja“ sem Sigtryggur Guðlaugssyni hófst handa við á árinu 1905, tveim árum áður en hann og bróðir hans Kristinn stofnuðu Ungmennaskólann að Núpi. Hugmynd Sigtryggs og Kristins var að garðurinn yrði til hjálpar við kennsluna, „plantafræði og garðrækt ...aðhlynning trjágróðurs - skólagarður. Garðinn hannaði Sigtryggur af mikill kostgæfni og nákvæmni en hönnunin byggist að miklu leiti á hönnun garða í Evrópu á árum áður.

Sigtryggur sjálfur segir svo frá, birt í ritinu „Skrúður á Núpi - Græðsla og gróður í 50 ár“ **:

Eins og kunnugt er, geta gróðurgarðar heimila verið þrennskonar:
Trjágarðar (Kökkenhave), sem Einar garðyrkjumaður telur svo prýðilega í nöfnum bóka sinna: „Bjarkir“, „Rósir“, „Hvannir“. Ekkert eitt af þessu þrennu er hugsunin með stofnun Skrúðs. Aðaltilgangurinn var að reyna að sýna eftir mætti, hvað gróið gæti úr mold á Íslandi til fæðu, fjölnytja og fegurðar, eða vera matjurtargarður skýþddur að verðleikum íslenskum blóma. Þegar Kristinn bróðir minn og eg höfðum lagt hug á að koma upp skóla, féll gróðrarreiturinn í huga mínum í sambandi við það, sem eg hefi orðað þannig á öðrum staða.

  • Vera til hjálpar við kennslu í almennri plantnafræði og garðrækt (námskeið) og einkum að því er snertir aðhlynning trjágróðurs - skólagarður -.
  • Sýna nemöndum, hvað vaxið getur í íslenskum jarðvegi og jafnvel hrjóstugum, ef athugun og nákvæmni fylgir og tekið er tillit til íslensks veðurfars.
  • Venja nemendur við að neyta garðjurta og viðurkenna ágæti þeirra til fæðubóta og heilbrigði.

Þrátt fyrir framfarahug og bjartsýni bræðranna hafa þeir varla, fremur en aðrir, séð fyrir allt það sem 20. öldin bar í skauti sér.

Nú er svo komið að ekki er lengur skólahald á Núpi. Ávextir, grænmeti og blóm sem vikunni fyrr stóðu í moldu í Hveragerði, á Ítalíu eða á Nýja-Sjálandi eru í dag á borðum vestur á Núpi eða austur í Köldukinn.

Markmið starfrækstlu Skrúðs geta því ekki lengur verið hin sömu og sr. Sigtryggs sá fyrir sér. Sýn bræðranna og kynslóðarinnar sem vakti og lét í senn hrífast af hugsljónum alsamótanna 1900 er hins vegar öllum, sem kynntust ógleymanlegt þakkarefni. Skrúður mun alla tíð skipa sess í garðyrkjusögu Íslands. jafnframt þarf starfræksla hans að vera lifandi tákn baráttunnar vestra í árdaga sjálfstæðis þjóðarinnar.

Hugsjón Sigtryggs:

Hver blettur landsins sem fær hjálp til við að klæðast náttúruskrauti, verður manninum ofurlítil Eden sem endurnærir, hvílir og vekur ómælda gleði. Alls þessa þarfnast maðurinn, hann lifir ekki af brauði einu saman! Í huga Sr. Sigtryggs var mannrækt og garðrækt samofin, hann bar hag mannsins fyrir brjósti og bar mikla virðingu fyrir náttúrunni. Trú hans og von var að hagnýt fræðsla og ást á gróðri móðurlandsins fengi fastari sess í skólum landsins. Hann réðst í gerð matjurta- og skrúðgarðs í tengslum við unglingaskólann.

Markmið hans með gerð garðsins var þríþætt, nýta átti garðinn til kennslu í jurtafræði og garðrækt, jafnframt því að kynna fyrir nemendum garðávexti sem neysluafurð, og sýna fram á hvað getur þrifist í íslenskum jarðvegi.

Sr. Sigtryggur hafði hug á að safna saman íslenskum jurtum, þá helst þeim sem mest þóttu til prþði. Hann varð sér úti um jurtir eða fræ frá fjarlægum héruðum, frá Rangárvallarsýslu,  Eyjafirði, Fnjóskadal, auk þess kom nokkuð frá nágrannasveitunum. Skrúður var því frá upphafi nokkurs konar skólagarður. Á þessum tíma voru möguleikar til ræktunar alveg ókannaðar. Þar sem áður var bara urð og grjót var risinn innan fárra ára undurfagur skrautgarður. Menn tóku að trúa á ræktunarmátt íslenskrar moldar.

Kaflinn um hugsjón Sigtryggs er tekin af mennta.hi en þar má einnig lesa meira um Skrúð.

*Eftir því sem rannsóknir Sigtryggs leiddu í ljós mun þessi dagsetning koma næst sannleikanum. Sjá minnisvarða um séra Björn í Sauðlauksdal sem staðsettur er í Sauðlauksdal, hér á Grænum síðum.
**Gefið út af Framkvæmdasjóði Skrúðs árið 2004.

Sjá garða á Íslandi hér á Græna Íslandskortinu.

Sjá Skrúð og Hlið, grasa og trjágarða hér á Grænum síðum.

Myndir: Eftir myndin sýnir Skrúð bera við Gnúpinn. Sú neðri er af greinarhöfundi við gróðurhúsið í miðjum garðinum, en það er hannað af Sigtryggi sjálfum og reist árið 1925. Myndir teknar þ. 17.07.2009. Ljósmyndir: Einar Bergmundur.

Birt:
25. júní 2011
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skrúður á Núpi í Dýrafirði“, Náttúran.is: 25. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2009/07/22/skruour-nupi-i-dyrafiroi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. júlí 2009
breytt: 25. júní 2011

Skilaboð: