Fyrr í mánuðinum fékk Elding / Hvalaskoðun Reykjavík ehf. fullnaðarvottun Green Globe „Green Globe Certified“. Fyrirtækið hefur  unnið að þessu markmiði síðastliðin tvö ár. Green Globe setur viðmið um umhverfis- og samfélagslega frammistöðu fyrirtækjanna í þeim tilgangi að þau fái vottun og bæti sig sífellt á því sviði.

Helstu markmið Eldingar eru:

  • Kappkosta að finna lítið/minna mengandi orkugjafa fyrir dagleg störf
  • Lágmarka notkun orku
  • Lágmarka notkun efna í daglegum störfum
  • Lágmarka framleiðslu sorps/ úrgangs og hámarka endurvinnslu
  • Nota helst umhverfisvænar og staðbundnar vörur
  • Veita starfsfólki reglulega fræðslu um umhverfis- og öryggismál
  • Fræða gesti um lífríki hafsins og umhverfið sem við störfum í

En umhverfisvottun snýst ekki einungis um umhverfismál, heldur tekur það ferli einnig til þátta eins og siðferðis, sanngjarnra viðskiptahátta og félagslegrar ábyrgðar og mótar fyrirtækið sér þ.a.l. heildstæða stefnu í átt til sjálfbærrar þróunar. Ferlið að umhverfisvottun er árangursríkt stýritæki fyrir fyrirtækið, bæði á sjó sem og á landi.

Mætum þörfum nútímans án þess að ganga á möguleika framtíðarinnar!

Forsvarmenn Eldingar tala af reynslu þegar þeir segja að ávinningur sé af því fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að tileinka sér umhverfisstefnu í rekstri sínum enda geti það gegnt lykilhlutverki í sjálfbærri uppbyggingu til framtíðar í íslenskri ferðamennsku.  Það að tileinka sér umhverfisvottun í ferðaþjónustu getur skapað aukin sóknarfæri þar sem fyrirtæki í greininni geta styrkt ímynd sína, bætt samkeppnistöðu í því markaðsumhverfi sem þau starfa og þetta er í leiðinni ákveðinn gæðastimpill til neytandans, í tilviki Eldingar, ferðamannsins. Þeir telja því  að umhverfisvottun sé árangursríkt tæki til að vinna eftir. Í fyrsta lagi er náttúran helsta aðdráttarafl sem ferðaþjónusta á Íslandi byggist á, það hlýtur því að vera ávinningur fyrir alla að vel sé haldið utan um þá auðlind. Í öðru lagi felur umhverfisstjórnun í sér ákveðna sjálfbærni og getur því verið hvati á sitt nánasta umhverfi og rennt styrkari stoðum undir atvinnulíf á svæðinu.

Sjá hér á grænum síðum þau fyrirtæki og sveitarfélög á Íslandi sem hlotið hafa fullnaðarvottun Green Globe. Elding / Hvalaskoðun Reykjavík hefur auk þess Bláfánann, sjá hverjir hafa Bláfánann á Íslandi.
Skoðaðu einnig hérna á græna kortinu þau fyrirtæki á Íslandi sem geta sannarlega talist vinna á sviði umhverfisvænnar ferðaþjónustu.

Birt:
Oct. 27, 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Elding hvalaskoðun fær fullnaðarvottun Green Globe“, Náttúran.is: Oct. 27, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/27/elding-hvalaskooun-faer-fullnaoarvottun-green-glob/ [Skoðað:July 23, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: