Leikskólarnir Álfaheiði, Fífusalir og Furugrund í Kópavogi hafa fengið viðurkenningu umhverfisráðs 2009 fyrir athyglisvert framlag til umhverfismála. Viðurkenningin er veitt vegna framúrskarandi vinnu og fræðslu til barna varðandi umhverfismál almennt.

Leikskólinn Álfaheiði fékk Grænfánann á degi umhverfis 25. apríl 2008 og hefur starfið gengið mjög vel. Umhverfisnefnd starfar við skólann og eru elstu börnin virkir þátttakendur í nefndinni. Mikil áhersla er lögð á að öll börn leikskólans fái tækifæri til að taka þátt í umhverfisstarfinu og að börnin geti notið og upplifað nánasta umhverfi á jákvæðan og skemmtilegan hátt. Útivera og gönguferðir um næsta nágrenni skipa því stóran sess í starfi leikskólans. Endurnýtanlegur efniviður er flokkaður og hluti hans nýttur í skapandi starf barnanna. Hringrás náttúrunnar upplifa börnin þegar þau fara með lífrænan úrgang í moltutunnur sem verður svo að mold sem nýtt er í beðin. Hlutverk kennaranna er að vera góðar fyrirmyndir, skapa aðstæður og umhverfi þannig að leikgleðin fái að njóta sín.

Leikskólinn Fífusalir hóf starfsemi sína á árinu 2001 og var frá upphafi með mikið og gott umhverfisstarf. Haustið 2007 var sótt um að verða skóli á grænni grein og fékk hann afhentan Grænfánann 18. apríl 2008. Í dag gengur verkefnið mjög vel. Með samstilltu átaki og áhuga starfsfólks á verkefninu smitar það áhuga til barnanna sem taka virkan þátt í starfinu. Börnin á deildunum skiptast á að flokka úrgang frá eldhúsinu og taka frá það sem er nýtilegt í starf í leikskólanum. Annan úrgang fara þau með í grenndargáma. Börnin taka einnig þátt í moltugerð, þrífa og tína upp rusl á lóðinni.

Leikskólinn Furugrund er þáttakandi í Comeniusar verkefni sem heitir Euro-citizens of the future eða evrópubúar framtíðarinnar. Verkefnið byggist á því að hvetja börnin til þess að verða ábyrg fyrir umhverfi sínu. Eitt af markmiðum leikskólanna í þessu verkefni var að fá Grænfánann og var hann afhentur þeim með viðhöfn af umhverfisráðherra 2. júní s.l. Börnin taka virkan þátt í verkefninu t.d. með því að flokka rusl og fara með það í grenndargáma og rækta eigið grænmeti í skólagörðunum. Einnig er mikil endurvinnsla í leikskólanum þar sem gamlir hlutir fá annan tilgang í skrauti og gjöfum til foreldra. Heilmikil vitundarvakning hefur orðið í leikskólanum bæði hjá börnunum og starfsfólki sem fara með þekkinguna heim og vinna þannig áfram að umhverfismálunum.

Mynd: Forstöðumenn Grænfánaleikskólanna í Kópavogi með viðurkenningarsjkölin. Mynd frá Landvernd. Sjá nánar um Grænfánaverkefnið á vef Landverndar.

Birt:
26. ágúst 2009
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Athyglisvert framlag til umhverfismála“, Náttúran.is: 26. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/26/athyglisvert-framlag-til-umhverfismala/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: