Sá séríslenski ávani fjölmiðla að taka rannsóknir, niðurstöður umhverfismats og aðra útreikninga frá framkvæmdaaðilanum sjálfum sem heilagan sannleik kristallaðist á nokkuð spaugilegan hátt í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins nú í kvöld. Þar var því haldið fram sem blákaldri staðreynd að „vegna lofslagsbreytinga og minnkunar jökla muni Hálslón Kárahnjúkavirkjunar fyllast af aurburði á 10.000 árum en ekki 500 eins og áður var talið“. Haldið er áfram að segja frá því að Kárahnjúkavirkjun sem stærsta framkvæmt Íslandssögunnar og jafnframt sú umdeildasta hafi m.a. verið gagnrýnd fyrir það að aurburður myndi á skömmum tíma (500 árum) verða til þess að miðlunargeta lónsins þverri og áhrifa myndi fara að gæta eftir um 100 ár, ef ekki fyrr.

Auðvitað voru þessir útreikningar líka frá færustu sérfræðingum Landsvirkjunar eins og reyndar allar kynntar niðurstöður frá fyrirtækinu. Sömu sérfræðingar hafa þá væntanlega reiknað vitlaust eða fyrirfarist að reikna með loftslagsbreytingum sem eins og allir vita eiga sér stað og voru einnig fyrirsjáanlegar fyrir nokkrum árum síðan. Enginn veit þó á þessu stigi hve mikil áhrif lofslagsbreytingarnar hafa né hve hlýnun jarðar verður nákvæmlega mikil enda stjórnast sú þróun alfarið af því hve við mannverurnar á jörðinni verðum duglegar að taka tillit til umhverfisáhrifa af gjörðum okkar, m.a. af stóriðju...sem knúin er af orkuverum.

Óli Grétar nefnir í fréttinni að nýjustu rannóknir á líftíma lónsins bendi því til þess að rekstrargrundvöllur virkjunarinnar verði því miklu betri en áður var talið. Óla Grétari yfirsjást þó allnokkur stór atriði í þessu sambandi. T.d. að líftímii stíflanna sjálfra, líftími virkjunarinnar sjálfrar og álversins sem virkjunin knýr er ekki í samræmi við slíkar langtímaspár. Hver er tilbúinn að halda því fram að álverið í Reyðarfirði sé starfrækt að hundrað árum, fimmhundruð árum, hvað þá þúsundum árum liðnum og hver er tilbúin að gefa yfirlýsingar um stöðu heimsins eftir hundrað ár+. Ísland verður líklega löngu óbyggilegt, of kalt eða of heitt, heimurinn á heljarþröm og hugsanlega hafa einnig ótal dyngjugos, jarðhræringar og önnur náttúrleg fyrirbæri séð til þess að hvorki við Hálslón á Íslandi eða á byggðu bóli standi steinn við steini. Óli Grétar minnist heldur ekkert á þann möguleika að Ísland snarkólni á skömmum tíma sem gæti verið ein afleiðing hlýnunar jarðar.

En fréttastofur gleypa við svona haleluja-propaganda-fréttaburði frá orkurisanum Landsvirkjun eins og að ekkert sé. Landsvirkjun spilar á miðlana eins og á hörpu sem er stillt inn á þá sérhæfðu fölsku tóna sem að berast þaðan reglulega. Yfiklór og andlitslyfting af þessum toga er í mesta lagi til að gera Landsvirkjun að athlægi. Bravó RÚV!

Myndin er af Kárahnjúkastíflu í ágúst 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
5. janúar 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Landsvirkjun klórar í bakkann“, Náttúran.is: 5. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/05/landsvirkjun-thakklat-fyrir-hlynun-jaroar/ [Skoðað:2. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. janúar 2008

Skilaboð: