Útivera er ein skemmtilegasta leiðin til að halda sér og fjölskyldu sinni heilbrigðri og léttri í lund. Ferðalög þurfa ekki að vara lengi en það getur verið yndisleg upplifun fyrir fjölskylduna að komast aðeins út fyrir borgina eða bæinn og út í náttúruna. Keyrið varlega og njótið þess að skoða út um gluggan það sem fyrir augum ber. Mundu að keyra aldrei utanvega, það er vanvirðing við náttúruna. Hjólför geta rist jarðveginn djúpt og eyðilagt gróður.

Útilegur gefa okkur tækifæri til að ná jarðsambandi, skoða landið og anda með náttúrunni. Að liggja inni í tjaldi og hlusta á lækjarnið og fuglasöng eru lífsgæði sem enginn ætti að neita sér um. Á Íslandi er óheimilt að hafa næturgistingu í tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldstæða og þéttbýlis nema leyfi landeiganda eða rétthafa lands komi þar til. Annars gilda eftirfarandi reglur um hvar má tjalda samkvæmt lögunum:

Hvar má tjalda ?

  • Við alfaraleið í byggð er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi sé tjaldsvæði ekki í næsta nágrenni og landeigandi hefur ekki takmarkað eða bannað aðgang að svæðinu með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl þeirra innan svæðisins.
  • Við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld.
  • Utan alfaraleiðar hvort heldur sem á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um svæðið.

Hvenær þarf að afla leyfis landeiganda eða rétthafa lands ?

  • Ef til stendur að tjalda nærri mannabústöðum eða bæ.
  • Ef til stendur að tjalda til fleiri en einnar nætur.
  • Ef um er að ræða fleiri en þrjú tjöld.
  • Ef um er að ræða ræktað land.
  • Ef um er að ræða tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða og þéttbýlis.

Eru einhver svæði þar sem má ekki tjalda/hafa næturgistingu ?

  • Eiganda lands eða rétthafi getur takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af.
  • Ef landeigandi eða rétthafi lands hefur útbúið sérstakt tjaldsvæði á sínu landi er honum heimilt að beina fólki þangað og taka gjald fyrir þjónustuna. Eins ef tjaldsvæði er í nágrenni eignarlandsins getur eigandinn beint fólki þangað.
  • Á friðlýstum svæðum geta verið takmarkanir á því hvort heimilt sé að tjalda þar.

Fjallgöngur og gönguferðir eru orðnar stór hluti af afþreyingu og íþróttaiðkun landsmanna jafnt sem erlendra ferðamanna sem flykkjast hingað til lands til að njóta náttúrunnar.

Að ganga er ein besta og ódýrasta líkamsrækti sem völ er á. Hún er ekki bundin við sérstakan stað né tíma svo þú ert alveg frjáls í að þjálfa þig þegar þú vilt. Hún er líka tilvalin til að fá sér ferskt loft. Ganga styrkir líkamann og getur spornað við ýmsum æðasjúkdómum og bætt andlega líðan. Með góða skó á fótum ertu tilbúin í gönguferðina. Gönguleiðir og stígum í kringum bæi og borg hefur fjölgað til muna á síðustu árum. Best er að ganga eftir merktum gönguleiðum, annað getur verið slæmt fyrir jarðveginn, þú gætir lent inná einkalóð eða lent í ógöngum eða hættu. Á vefnum ganga.is er hægt að sjá bæði léttar og erfiðar gönguleiðir um allt land.

Mikilvægt er að sýna náttúrunni virðingu. Í því felst að skilja við svæðin sem við heimsækjum eins og við komum að þeim, skilja ekki eftir rusl á jörðinni, heldur taka það með heim eða henda í ruslagám séu flokkunargámar ekki fyrir hendi.

Þú sérð 19 mismunandi útiveruflokka undir „Náttúran - Útivera“ á Græna kortinu á Náttúran.is.

Sjá Græna kortið.

 

 

Birt:
2. september 2016
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Útivera“, Náttúran.is: 2. september 2016 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/utivera/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 2. september 2016

Skilaboð: