Hátt í eitt hundrað manns sóttu málþing um sjálfbærar byggingar sem haldið var í Sesseljuhúsi að Sólheimum í dag. Sænski arkitektinn Varis Bokalders var heiðursgestur málþingsins en hann hefur unnið viðamikið starf á sviði rannsókna og skilgreininga umhverfisviðmiða sem hugtökin „sjálfbær, visthæf, vistvæn, umhverfisvæn“ hús geta eða þurfa að taka tillit til. Í bók sinni „Byggekologi“ eða byggingarvistfræði sem gefin var út árið 2004 (ISBN 91-7333-070-1) er farið ítarlega ofan í atriði sem varða mannlegar þarfir, hagkvæmni, umhverfisáhrif, orkunotkun, tækniþætti, gróður- og veðurfarslega þætti, samfélagslegu hliðina og allt þar á milli. Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir forstöðumaður Sesseljuhúss setti í sumar upp sýningu byggða á bók Varis Bokalders í Sesseljuhúsi þar sem hún á einfaldan og yfirlitsgóðan hátt dregur upp mynd af megininnihaldi bókarinnar. Sýningin er enn uppi og ráðlegg ég öllum að sjá sýninguna á meðan að tækifæri er til.

Auk Varis Bokalder hélt Árni Friðriksson arkitekt að Sesseljuhúsi kynningu um húsið og aðrar byggingar sem hann hefur hannað. Sigurður Harðarson arkitekt flutti erindi um veðurfarslega þáttinn, þátt sólar og vinds við skipulag hverfa og hönnun húsa. Björn Marteinsson sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun Byggingariðnaðarins og dósent við verkfræðideild HÍ flutti ákaflega fróðlegt erindi og varpaði fram spurningum um „hve græn við viljum vera“ með tilliti til efnis- og orkunotkunar. Daði Ágústsson kynnti LED ljóstækni (ljóstvistinn) og Sigurður Ingi Friðleifsson forstöðumaður Orkuseturs sló botninn í dagskrána með bráðfyndinni framsetningu á staðreyndum um orkubruðl og áhrif þau sem það hefur. Með því „að virkja okkur sjálf“ við ákvaraðanatökur gætum við sparað við okkur virkjanir í framtíðinni. Sigurður nefni m.a. að okkar vistvæna orka væri ekki vistvæn að öllu leiti, ekki ef bruðlað er með hana. Farið væri að kalla kólóvattstundirnar „skítavatnsstundir“ norðan heiða (átt við skítugt vatn jökulvatnsfyllts Lagarfljóts). Dagskránni lauk með eldheitum pallborðsumræðum þar sem niðurstaðan var einfaldlega sú að gífurlega mikil vinna væri fyrir höndum að ná taki á einhverju haldbæru til að vinna með, til að auka vægi vistvænrar hugsunar í hönnun bygginga.
-
Myndin er af Varis Bokalders í pontu á málþinginu, þ. 20.09.2006.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
21. september 2006
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Orkusparnað eða fleiri „skítavatnsstundir“? - Það er ein spurningin“, Náttúran.is: 21. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/skitavatnsstundir/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 26. janúar 2008

Skilaboð: