Landvernd hefur sent Umhverfisstofnun athugasemdir vegna tillögu að starfsleyfi Norðuráls í Helguvík. Margt bendir til þess að erfitt gæti reynst að uppfylla almennar skuldbindingar Íslands um hámark 10% aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda ef til kemur aukinn PFC losun frá nýjum álverum á samningstímabilinu 2008-2012. Landvernd beinir því til Umhverfisstofnunar að gera kröfur um vöktun á magni flúors á beitarsvæðum hrossa en samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar er talin þörf á því.

Bréf Landverndar:

Umhverfisstofnun
Suðurlandsbraut 24
108 Reykjavík

Reykjavík 13. ágúst 2008

Athugasemdir við auglýst starfsleyfi Norðuráls í Helguvík.

Landvernd telur fyrirhugaða útgáfu ótímabæra þar sem vitneskja um grundvallarþætti starfseminnar er ekki fyrir hendi. Ekki liggur fyrir hvort eða hvaðan orka fáist í álverið og mikil ósætti eru um fyrirkomulag á orkuflutningum. Þá er margt sem bendir til þess að erfitt gæti reynst að uppfylla almennar skuldbindingar Íslands um hámark 10% aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda ef til kemur aukinn PFC losun á samningstímabilinu 2008-2012. Umhverfisráðherra óskaði fyrr á árinu eftir nýrri spá frá Umhverfisstofnun og mati á því hvort líkur séu á að Ísland fari fram úr skuldbindingum sínum samkvæmt Kýótó-bókuninni.

Landvernd telur rétt, m.v.í. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og þá óvissuþætti sem taldir eru upp hér að ofan, að Umhverfisstofnun fresti útgáfu starfsleyfis þar til ný spá frá umhverfisstofnun liggur fyrir og heildstætt mat á umhverfisáhrifum orkuöflunar og orkuflutninga hefur farið fram.

Skipulagsmál hina ýmsu sveitarfélaga
Breyta þyrfti skipulagi sjö sveitarfélaga annarra en Reykjanesbæjar og Garðs til þess að áform um orkuflutningana geti náð fram að ganga.* Orkukostirnir sem horft er til eru að mestu leyti í löndum annarra sveitarfélaga en Reykjanesbæjar og Garðs. Af aðdraganda málsins og ummælum ýmissa forsvarsmanna sumra þessara sveitarfélaga verður að teljast ólíklegt að þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli vilji afhenda auðlindir sínar til álvers í Helguvík. Má hér benda á tilurð félagsins Suðurlinda sem m.a. var stofnað til þess að standa vörð um hagsmuni Voga, Grindavíkur og Hafnarfjarðar en háhitasvæðin í Krþsuvík eru í landi þessara þriggja sveitarfélaga. En auk þess hefur bæjarstjóri Ölfuss lagt áherslu á að nýta þá orku sem er að finna í landi
sveitarfélagsins í sveitarfélaginu.

Ákvæði um vöktun á flúoríðum í gróðri vantar
Í auglýstu leyfi er ekki gert ráð fyrir vöktun á magni flúors á beitarsvæðum hrossa en samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar væri rétt að vakta flúor í gróðri á beitarsvæðum hrossa. Gefi niðurstöður slíkrar vöktunar tilefni til gæti þurft að kanna hvort flúoráhrif finnist hjá hrossum. Þessi atriði úr áliti Skipulagsstofnunar hafa ekki ratað inn í starfsleyfisdrögin. Landvernd beinir því til Umhverfisstofnunar að taka á þessu atriði með viðeigandi breytingum á 3. kafla starfsleyfisins, þar sem fjallað er um innra eftirlit, mælingar og upplýsingagjöf.

Losun gróðurhúsalofttegunda
Þá er í auglýstu leyfi gert ráð fyrir því að notast sé við hefðbundin rafskaut með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Óljóst er hvort Norðuráli verði úthlutað þeim losunarkvóta sem fyrirtækið sækist eftir enda heimildir “Íslenska ákvæðisins” af skorum skamti. Ýmislegt bendir til þess að almenn heimild okkar til 10% aukinnar losunar sé uppurin m.a. vegna gríðarlegrar aukningar í losun flúorkolefna frá álveri Norðuráls á Grundartanga auk þess sem losun gróðurhúsalofttegunda jókst um rúm 24% frá 1990 til 2006. Að samanlögðu er nú þegar í járnum hvort Íslandi takist að standa við skuldbindingar sínar um innan við 10% aukningu í losun og vandséð að nýju álveri, með tilheyrandi PFC losun, rúmist innan skuldbindinganna.

Tengdar framkvæmdir
Til þess að áformin geti náð fram að ganga þarf að meta umhverfisáhrif virkjana og orkuflutningsmannvirkja. Líklega yrði virkjað á fjórum áður óvirkjuðum svæðum, þ.e. Trölladyngju, Sandfelli, Seltún og Austurengjum, og flytja þyfti orkuna um níu sveitarfélög allt frá Ölfusi til Garðs. Þessar “tengdu framkvæmdir” eiga eftir að fara í umhverfismat en þar til umhverfismat liggur fyrir er lítið vitað um raunveruleg áhrif álversins á náttúru Íslands. Með vísan í nýlegan úrskurð umhverfisráðherra um heildstætt umhverfismat fyrir álver á Bakka, tengdar virkjanir og orkuflutninga, verður að ætla að umhverfisáhrif orkuflutninga og orkuöflunar til handa álverinu í Helguvík fari í heildstætt umhverfismat, enda endurspeglar úrskurður ráðuneytisins um álver í Helguvík ekki afstöðu ráðuneytisins til þeirra framkvæmda, eins og segir í niðurstöðu úrskurðains:

“Í þessu sambandi skal þó áréttað að niðurstaða þessi felur ekki í sér afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 2. mgr. 5. gr. kunni síðar að geta komið til álita vegna annarra matsskyldra framkvæmda álverinu í Helguvík tengdum.”

Til þess að markmið laganna um upplýsta ákvörðunartöku og leyfisveitingar; „að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar“ geti náð fram að ganga ber leyfisveitendum, þ.m.t. Umhverfisstofnun, að bíða með útgáfu leyfa þar til fram hefur farið mat heildstætt mat á umhverfisáhrifum á þeirrar „starfsemi sem henni fylgir“ – en óhjákvæmilega fylgja virkjanir og mannvirki til orkuflutninga ef álver rís í Helguvík.
Birt:
21. ágúst 2008
Höfundur:
Landvernd
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Athugasemdir v. starfsleyfis fyrir álver í Helguvík“, Náttúran.is: 21. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/21/athugasemdir-v-starfsleyfis-fyrir-alver-i-helguvik/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: