Vistakstursátak Landverndar hafið
Forsætisráðherra Geir H. Haarde hleypti í dag vistakstursverkefni Landverndar formlega af stokkunum við hátíðlega athöfn á Hilton hótelinu. Forsætisráðherra keppti við þetta tækifæri í vistakstri ásamt þeim Guðmundi Erni Gunnarssyni forstjóra VÍS, Magnúsi Kristinssyni stjórnarformanni Toyota á Íslandi og Sigurði Inga Friðleifssyni hjá Orkusetrinu. Úrslit keppninnar urðu þau að Geir H. Haarde sigraði en hann eyddi aðeins 5,67 l af bensíni á hundraðið.
Áður en blásið var til keppninnar var voru undirritaðir samningar við Orkusetrið sem er samstarfsaðili Landverndar í vistakstursverkefninu og bakhjarla verkefnisins sem eru ríkisstjórn Íslands, Toyota og VÍS. Á myndinni eru f.v. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, Magnús Kristinsson, Toyota, Guðmundur Örn Gunnarsson, VÍS og Sigurður Ingi Friðleifsson frá Orkusetrinu.
Vistakstursátak Landverndar er að því leyti ný stárlegt að kennsla fer fram með hjálp vistakstursherma. Hermunum má líkja við leikjatölvur sem forritaðar eru með mismunandi akstursleiðum sem þátttakendur á námskeiðum Landverndar æfa sig í að aka.
Námskeiðin eru fyrst og fremst hugsuð fyrir vinnustaði. Auðvelt er að ferðast með hermana og því hægt að bjóða upp á námskeið á vinnustöðunum sjálfum.
Belgísku umhverfissamtökin Eco Life þróuðu búnaðinn í samstarfi við Green Dino í Hollandi, og sér Toyota í Evrópu um fjármögnun. Landvernd heldur utan um verkefnið á Íslandi og sér um að þjálfa kennara. Bakhjarlar verkefnisins eru ríkisstjórn Íslands, Toyota á Íslandi og VÍS. Orkusetrið, Ökukennarafélag Íslands og Félag íslenskra bifreiðaeigenda eru samstarfsaðilar.
Keppendur fengu bók Sigrúnar Helgadóttur Jökulsárgljúfur – Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli. Sigurvegari keppninnar, forsætisráðherra, fékk að auki konfektkassa að launum. Á myndinni eru formaður og framkvæmdastjóri Landverndar ásamt keppendum dagsins í vistakstri.
Hér má nálgast ræðu formanns Landverndar frá athöfninni.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Vistakstursátak Landverndar hafið“, Náttúran.is: 19. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/19/vistakstursatak-landverndar-hafio/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. september 2008