„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það eru aðeins tveir möguleikar í stöðunni. Þ.e. að afkomendur okkar spyrji sig af hverju í ósköpunum við hefðum ekkert aðhafst til að sporna við þróuninni á meðan enn var tækifæri til eða að þeir spyrji sig hvernig í ósköpunum okkur tókst að finna styrk og hugrekki til að sporna gegn loftslagsbreytingunum sem að okkur steðjuðu og ógnuðu lífi á Jörðinni.“

Þannig hljóðaði niðurlag framsögu eins áhrifamesta persónuleika nútímans, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, „fyrrverandi næsta forseta Bandaríkjanna“ og nóbelsverðlaunahafans Al Gore er hann flutti ávarp til Íslendinga fyrir fullu húsi agndofa áheyrenda í Háskólabíói í morgun. Al Gore greindi m.a. frá því að hann standi fyrir námskeiðum um allan heim þar sem fólk fái þjálfun í að flytja fyrirlestur hans um hinn óþægilega sannleika lofslagsbreytinga. Yfir tvöþúsund fyrirlesarar hafa nú þegar notið leiðsagnar Al Gore.

Fyrirlesturinn sem fundurinn byggði á hefur verið í þróun og sífelldri endurnýjun í mörg ár enda eru áhrif lofslagsbreytinga á lífið á Jörðinni það mikil að sífelld endurnýjun er nauðsynleg. Að vekja íbúa heimsins af Þyrnirósarsvefni er stórt verkefni sem aðeins þaulreyndum, vel menntuðum, umhverfismeðvituðum og stórgáfuðum stjórnmálamanni á borð við Al Gore hefði getað verið mögullegt.

Fyrirlestur Al Gore var færður í kvikmyndaform fyrir um tveimur árum og sýndur í kvikmyndahúsum um allan heim. Myndin „The Inconvenient Truth“ vann til Óskarsverðlauna árið 2006. Innihald fyrirlestrarins í dag var sá sami og í myndinni en uppfærður með gögnum og myndefni um nýjustu niðurstöðum vísindasamfélagsins og áhrifum hitnunarinnar um allan heim.

Al Gore koma aðeins inn á hlutverk Íslands í þessu sambandi í inngangi að fyrirlestrinum og nefndi að hlutverk Íslands væri mikið í hnattrænu samhengi. Hann nefndi einnig að honum væri vel kunnugt um að mismunandi sjónarmið ríktu hvað varðar nýtingu og náttúruvernd á Íslandi. Forsvarsmenn samtaka eins og Framtiðarlandsins, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar höfðu komið þeim skilaboðum vel og skilmerkilega á framfæri við Al Gore að ekki væri full sátt um hvað sé „græn orka“ og hvað sé „sjálfbær nýting“ og „endurnýjanleg orka“. Þrátt fyrir aðdáun flestra náttúruverndarsinna á starfi Al Gore voru uppi nokkrar áhyggjur í umhverfisverndarsamfélaginu yfir því að skilaboð sem hann hafi fengið væru hugsanlega of lituð virkjanasinnuðum öflum og minna skeytt um að greina frá sjónarmiðum náttúruverndar sem slíkrar.

Sjálfbær nýting er ekki sjálfsagt afkvæmi svokallaðrar nýtingar „endurnýjanlegrar orku“ og full ástæða til að vara við þeirri túlkun að margar íslenskar virkjanir hvort sem eru vatnsfallsvirkjanir eða gufuaflsvirkjanir séu jákvæðar í umhverfislegu samhengi. Bæði komi til að ráðist sé í verkefni sem hafi í för með sé óafturkræf umhverfisáhrif og losun sé t.a.m. heilmikil af framkvæmdunum, jarðborunum og virkjununum sjálfum á líftíma þeirra. Íslensk náttúra sé í sjálfu sér náttúruauðlind sem best sé virkjuð í þágu kynslóða framtiðar og það vanti einungis verðmiða til að fá hana verndaða fyrir ofnýtingu á stuttum tíma.

Það er þó varla hætta á því að maður eins og Al Gore geti ekki myndað sér sína eigin skoðun og sett hlutina í samhengi enda ekki við neinn aula að etja. Heimsókn Al Gore til Íslands hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið á Íslandi og færir okkur nær hinni hnattrænu hugsun sem Al Gore grundvallar boðskap sinn um samábyrgð á.

Sjá 60 minutes viðtal við „Big Al“ Al Gore á umhverfisvefnum treehugger.com.

Myndin er af Al Gore á sviðinu í Háskólabíói í dag. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
8. apríl 2008
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Al Gore hvetur til samábyrgðar“, Náttúran.is: 8. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/08/al-gore-vekur-til-samabyrgoar/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. apríl 2008

Skilaboð: