Náttúran.is kynnir græna Íslandskortið á ráðstefnunni Driving Sustainability á Hilton Reykjavík Nordica dagana 18. -19. september.

Green Map byggir á kerfi 169 tákna sem sameina náttúru- og manngert umhverfi og sem hægt er að nota á mismunandi hátt. Í íslensku kortagerðinni höfum við metið hvert og eitt tákn miðað við íslenskar aðstæður, valið úr þau sem helst eiga við hér á landi og tengt þeim aðilum sem falla undir skilgreiningar hvers flokks.

  • Táknin ná yfir: Vistvæna lifnaðarhætti (grænt hagkerfi, tækni og hönnun, samgöngur, öryggi og vá o.s.fr.)
  • Náttúru (land og lögur, jurtaríkið, dýraríkið og útivist)
  • Menningu og samfélag (menning, umhverfisupplýsingar, réttlæti og barátta)

Táknin hafa þróast smátt og smátt en hönnun þeirra miðar að því að endurspegla hinar mismunandi vistvænu víddir samfélaga um allan heim. Gildismatið að baki táknunum er frábrugðið venjulegum korta-táknum. Það tekur afstöðu til þess að nauðsynlegt sé að nostra við nærumhverfið eða setja í forgang græn svæði, t.d innan þéttbýlis og um það er græna kort New York borgar gott dæmi.

Grænt Íslandskort/Green Map of Iceland en samvinnuverkefni Náttúran.is, alþjóðlega verkefnisins Green Map Systems og Land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands. Græna Íslandskortið byggist á flokkunarkerfi Green Map og umfangsmikilli forvinnu Náttúran.is við skilgreiningar og skráningar aðila á Grænar síður og slær smiðshöggið á kortlagningu vistænna kosta í viðskiptum og ferðamennsku á Íslandi.

Skoða græna kortið á íslensku á Náttúran.is og á ensku á Nature.is.
Skoða alþjóðlegan vef verkefnisins Green Map Systems á Greenmap.org

Tilgangur grænna korta víða um heim er að gera vistvæna kosti á sviði viðskipta, menningar og ferðaþjónustu sýnilegri og aðgengilegri. Græn kort hafa nú verið þróuð í 490 borgum, þorpum og hverfum í 53 löndum. Ísland er fyrsta landið til að þróa grænt kort fyrir allt landið í heild en það er nú komið í vefútgáfu á Náttúran.is á íslensku og á Nature.is á ensku.
Kortið tengist gríðarlegu magni af umhverfisupplýsingum og vottunartengingum sem þegar eru fyrir hendi á Grænum síðum Náttúrunnar. Tilgangur kortsins er m.a. að gefa nákvæma yfirsýn yfir þá fjölmörgu umhverfisvænu kosti sem fyrir eru í landinu og hvetja fjólk til að nýta sér þá og styðja þau fyrirtæki sem vinna á umhverfismeðvitaðan hátt.

Útbreiðsla kortagerðar um heiminn hefur verið hröð og að sumu leyti mætti líkja þeirri hviku við hnattræna umhverfishreyfingu í mótun. Green Map System tengslanetið er sett fram sem grasrótarverkefni þar sem staðbundin kort segja mismunandi sögu og eru ákveðið stöðumat á vistvænleika umhverfis. Þrátt fyrir að kortagerð af þessu tagi hafi upphaflega verið hrundið af stað í þéttbýli borgarumhverfisins hafa sprottið upp fleiri verkefni í dreifbýli, bæði sveit og víðáttum náttúrunnar, jafnt sem á skipulögðum útivistarsvæðum, t.d. svæðum með endurheimt votlendis.

Grunnur kortakerfisins er lifandi tungumál tákna sem að skilgreina allt frá góðum stöðum til að skoða stjörnuhiminn, til svæða menguðum af eiturúrgangi. Með hverju nýju svæði sem kortlagt er eykst yfirsýnin og tákn bætast við. Afrískt kortagerðarfólk bætti við jarðvegseyðingu á meðan að íbúar Yellowknife í Norðvesturfylkjum Kanada fannst að góð svæði til að sjá Norðurljós frá ættu erindi á grænt kort.

Birt:
17. september 2008
Höfundur:
Anna Karlsdóttir
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Anna Karlsdóttir „Grænt Íslandskort á Driving Sustainability“, Náttúran.is: 17. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/17/graent-islandskort-driving-sustainability/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. mars 2011

Skilaboð: