Íslandi lýst sem Eden vistvænnar orku
Í grein á Green Guide síðum The National Geographic er öfundast út í Íslendinga fyrir að eiga gnægt orku en yfirsögn greinarinnar sem birtist þ. 28. ágúst á síðum thegreenguide.com er Iceland's Energy Eden.
„Ímyndið ykkur stað þar sem hægt er að fara í heita sturtu án þess að vera með slæma samvisku; þar sem það að skrúfa upp hitann á hverjum degi hefur lítli áhrif á orkureikninginn, og loftkæling er algerlega ónauðsynleg; þar sem svo mikið er til af ferskvatni að þú getur stoppað næstum hvar sem er og svalað þorstanum með vatni úr ferskri lækjarsprænu; þar sem daglegt brauð er bakað í holu í jörðinni; og það besta af öllu, þar sem heitur pottur er aldrei langt undan.
Ímyndaðu þér Ísland. Þessi græna paradís liggur á einu stærsta kvikusvæði heimsins, á hinum virku flekaskilum Norður-Ameríku og Evrasíu - staður sem býr yfir sínum eigin sjálfbæru orkulindum rétt undir yfirborðinu, og stundum ofan þess.“
Haldið er áfram að lofsama Ísland og orkuna og er greinilega lítið vitað um að þónokkur og stundum gríðarlega neikvæð umhverfiáhrif verði af virkjun okkar hreinu orku. En einnig er komið inn á umhverfisvæna ferðaþjónustu þar sem réttilega er bent á að nýlega hafi 5 sveitarfélög á Snæfellsnesi fengið Green Globe fullnaðarvottun (sjá alla sem hafa Green Globe fullnaðarvottun), Hertz bílaleigan nefnd fyrir að vera fyrsta bílaleigan með vetnisbíla í flotanum og Eldingu hvalaskoðun (Reykjavík Whalewatching) hrósað sem fyrsta farþegaskipinu sem knúið er tilraunavetnisrafli. Reykjavík Whalewatcing er einnig með Bláfánann og hefur náð viðmiðum Green Globe. Gróðurhúsin okkar og skógræktin nefnd og Reykjavíkurborg hrósað fyrir markmiðssetningu á sviði umhverfismála.
Þó að margt sé ansi kryddað og nokkuð fegrað er farið með alrangt mál þegar farfuglaheimilin á Íslandi eru annars vegar. Í greininni stendur að 26 farfuglaheimili séu með Svaninn Norræna umhverfismerkið sem er auðvitað nokkuð þkt því aðeins eitt af þeim er með Svansvottun þ.e. Farfuglaheimilið í Reykjavík (Sjá aðila með Svaninn) en tíu farfuglaheimili hafa merkið Grænt farfuglaheimili/Green Hostel sem er ekki vottun sem slík heldur merki um umhverfisstefnu.
Á græna Íslandskortinu má sjá hvaða aðilar geta talist vera grænir á einhvern hátt í Ferðaþjónustuiðnaðinum á Íslandi og á grænum síðum má sjá enn nákvæmara niðurbrot eftir því hvaða vottun hver er með. Einnig er hægt að skoða hvaða ferðaþjónust er með hvaða þjónustu.
Greinarhöfundur hefur sjálfsagt annað hvort ekki vitað af grænu síðum og græna Íslandskortinu og því ekki getað leitað sér nákvæmra heimilda en mögulegt er að hann hafi unnið greinina fyrir ágústbyrjun þegar að grænu síðurnar og Íslandskortið birtust fyrst á ensku á síðum Nature.is.
Sjá greinina á Green Guide.Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslandi lýst sem Eden vistvænnar orku“, Náttúran.is: 4. október 2008 URL: http://nature.is/d/2008/10/04/islandi-lyst-sem-eden-vistvaennar-orku/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. mars 2012