Fréttir herma að fátt geti komið í veg fyrir að kanadíska fyrirtækið Magma Energy Corp eignist 98% hlut í HS orku sem þýðir að þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins sé komið í hendur erlendra aðila, eða réttara sagt sænsks leppfyrirtækis sem frontar fyrir kanadíska fyrirtækið. Hagnaður af orkusölunni flyst því úr landi vegna þess að álver Árna J. Sigfússonar skal reisa í Helguvík hvað sem tautar og raular. Þetta er löngu ákveðið mál og allir tilburðir til þess að benda á hættuna sem af þeirri stöðu gæti hlotist að fyrirtækið færi í hendur erlendra aðila var kæfð niður með aðferðum sem maður hefði mátt ætla að hægt hefði verið að sjá í gegnum fyrir löngu síðan og koma í veg fyrir.

Í frétt á visir.is í dag segir m.a. „Geysir Green Energy er íslenskt orkufyrirtæki sem ætlaði sér stóra hluti í orkuútrásinni en á nú í vök að verjast. Það er nú í eigu Atorku, Íslandsbanka og fleiri. Geyris Green á 52 prósenta hlut í HS orku en reynir nú að hámarka eignir sína með sölu þeirra. Þar bíður við dyrnar kanadíska fyrirtækið Magma Energy, sem í gegnum dótturfélag í Svíþjóð, Magma Energy Sweden, á nú þegar 46 prósenta hlut í HS orku. Fyrirtæki Magma í Svíþjóð var stofnað vegna þess að orkufyrirtæki utan evrópska efnahagssvæðisins meiga ekki eiga í íslenskum orkufyrirtækjum. Magma hefur gert tilboð í hlut Geysis Green og ef þau kaup ganga eftir á Magma Energy 98 prósent í HS orku. Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ segir að úr því sem komið er, geti fátt komið í veg fyrir söluna. Ef af sölunni verður segir Guðbrandur að hagnaður af rekstri HS Orku fari allur úr landi.“ (Sjá greinina í heild sinni hér).

Á fjölsóttum fundi í Saltfisksetrinu í Grindavík þ. 26. ágúst sl. (sjá grein samstöðuhóps um opinbert eignarhald að náttúruauðlindum) var reynt að vekja landann af værum blundi um hvað væri að gerast og samþykkt var áskorun þess hljóðandi „Samstöðufundur haldinn í Grindavík þann 25. ágúst 2009 skorar á ríkisstjórn Íslands og sveitarfélög að koma í veg fyrir að fram gangi kaup Magma Energy á hlutum í HS orku og tryggja þannig áframhaldandi opinbert eignarhald á þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins.“. Sú áskorun er hérmeð ítrekuð við ríkisstjórn Íslands.

Ljósmynd: Frá fundinum í Saltfisksetrinu þ. 25. ágústa 2009, Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
16. maí 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Auðlindin á Reykjanesi að verða 98% kanadísk“, Náttúran.is: 16. maí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/05/16/audlindin-reykjanesi-ad-verda-98-kanadisk/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. maí 2010

Skilaboð: