Í gær barst Náttúrunni bréf um að vefurinn hafi fengið styrk til áframhaldandi þróunar Græna Íslandskortsins/Green Map frá Iðnaðarráðuneytinu, en grænkortagerðin er samvinnuverkefni milli Náttúran.is, alþjóðlega verkefnisins Green Map Systems og Land- og Ferðamálafræðistofu Verkfræði og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

Styrkurinn gerir okkur kleift að halda áfram með rannsóknarvinnu og skráningar aðila á græna kortið með viðbótarflokkum sem spanna bæði náttúruna sjálfa, sem og vörur og þjónustu sem falla undir sjálfbæra ferðamennsku og viðskipti á Íslandi. Nú þegar hefur verið skráð í 50 flokka. Sjá Græna Íslandskortið, og ensku útgáfuna Green Map Iceland.
Við þökkum Iðnaðarráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn.

Í frétt á vef Ferðamálastofu segir:

Eitt hundrað milljónum króna hefur verið úthlutað til fjörtíu ferðaþjónustuverkefna um allt land. Styrkirnir eru fjármagnaðir af byggðaáætlun og er ætlað að renna frekari stoðum undir uppbyggingu atvinnugreinarinnar á landsbyggðinni.

Styrkirnir voru auglýstir í byrjun febrúar og þurfti að skila umsóknum fyrir 6. mars. Alls bárust 210 umsóknir um styrkina og lýsir það þeirri grósku sem er í ferðaþjónustu hér á landi. Styrkir til menningar- og heilsuferðaþjónustu eru áberandi en einnig til náttúruskoðunar ýmiss konar.

Sjá hér að neðan hvaða verkefni hlutu styrki Iðnaðarráðuneytsins til uppbyggingar í ferðaþjónustu:

1. Hafnarsamlag Norðurlands bs - 11.000.000,-
Þjónustuhús fyrir farþega skemmtiferðaskipa við Akureyrarhöfn.

2. Akraneskaupstaður - 8.000.000,-
Viskubrunnur í Álfalundi, ævintþragarður með áherslu á náttúru, menningu og mannlíf.

3. Grundarfjarðarbær - 6.300.000,-
Uppbygging aðstöðu fyrir farþega skemmtiferðaskipa við Grundarfjarðarhöfn.

4. Vatnavinir, Vestfjörðum - 5.000.000,-
Uppbygging náttúrubaða á Vestfjörðum.

5. Jöklaveröld í Hoffelli - 5.000.000,-
Uppbygging aðstöðu til afþreyingar, heilsubótar og fræðslu við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs.

6. Þjónustuhús á hjólum við Ísafjarðarhöfn - 5.000.000,-
Uppbygging þjónustuhús fyrir farþega skemmtiferðaskipa við Ísafjarðarhöfn.

7. Urðarbrunnur - 4.500.000,-
Sýning í Hveragerði þar sem helstu þáttum norrænnar goðafræði eru gerð skil.

8. Menntaferðasetur - 4.500.000,-
Miðstöð fyrir menntatengda ferðaþjónustu á landsvísu, námskeið haldin í samstarfi við menntastofnanir landsins.

9. Þingeyskt og þjóðlegt - 4.000.000,-
Klasasamstarf aðila sem koma að handverksframleiðslu og/eða þjónustu á handverki í Þingeyjarsýslum.

10. Ylströnd við Urriðavatn ásamt heitri laug - 4.000.000,-
Uppbygging aðstöðu fyrir almenning við Urriðavatn á Fljótsdalshéraði.

11. Hafnartorg og blómatorg - 4.000.000,-
Uppbygging við hafnarsvæðið í Vestmannaeyjum.

12. Tröllagarðurinn í Fossatúni - 3.000.000,-
Uppbygging söguvettvangs þar sem afsteypur sögupersóna eru mótaðar í fullri stærð og gönguhringur mótaður, varðaður skiltum, vörðum, bustabæ og leiksvæði barna.

13. Laufabrauðssetur Íslands - 2.500.000,-
Stofnun Laufabrauðsseturs á Akureyri. Hugmynd byggð á verkefnunum „Myndstrað munngæti“ og „Matur úr héraði“.

14. Sjóræningjahúsið - 2.500.000,-
Uppbygging í menningartengdri ferðaþjónustu á Patreksfirði.

15. Fuglastígur á Norðausturlandi - 2.500.000,-
Vöruþróun og markaðssetning á Fuglastíg, með áherslu á bætt aðgengi og grunngerð fyrir fuglaskoðun á Norðausturlandi.

16. Uppbygging móttökuaðstöðu í Djúpavogshöfn - 2.500.000,-
Uppbygging aðstöðu fyrir farþega skemmtiferðaskipa við Djúpavogshöfn.

17. Aldamótabærinn Seyðisfjörður - 2.000.000,-
Uppbygging í menningartengdri ferðaþjónustu á Seyðisfirði.           

18. Fléttuferðir um Vesturland og Suðurland - 2.000.000,-
Skipulagðar ferðir með áherslu á náttúru, menningu og sögu.

19. Garðyrkju- og blómasýning 2009 - 1.700.000,-
Garðyrkju- og blómasýning í Hveragerði.

20. Á selaslóðum - 1.500.000,-
Uppbygging selatengdrar ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra.            

21. Brúðuheimar, brúðusafn - 1.500.000,-
Opnun brúðuseturs í Englendingavík í Borgarnesi.   

22. Grettisýrautir- þróun leiktækja í anda Grettissögu - 1.500.000,-
Uppbygging í sögutengdri ferðaþjónustu á Laugarbakka.

23. Grænt Íslandskort  - 1.200.000.-
Samvinnuverkefni í kortlagningu vistvænna kosta í viðskiptum og ferðamennsku á Íslandi.           

24. Töfraland jólanna - 1.200.000,-
Skemmti- og menningardagskrá á aðventunni í Mývatnssveit.

25. Bætt aðstaða við Bökugarð - 1.200.000,-
Uppbygging aðstöðu fyrir farþega skemmtiferðaskipa við Húsavíkurhöfn.

26. Snorri Sturluson - 1.000.0000,-
Reykholtskirkja, endurnýjun fastasýningar er byggir á ævisögu Snorra Sturlusonar.

27. Heiðarbýlin - 1.000.000,-
Samvinnuverkefni um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu. Markmið að tengja heiðarbýlin á Jökuldalsheiðinni og nágrenni með gönguleið.

28. 24x24 – Glerárdalur og Tröllaskagi - 1.000.000,-
Útfærsla á gönguleiðum og skipulagning gönguferða á fjöll á Norðurlandi.

29. Guðrúnarlaug í Sælingsdal - 1.000.000,-
Uppbygging laugar sem hefur sögulega tengingu í Laxdælasögu.

30. Hvalbein í Skrúði - 1.000.000,-
Varðveisla forna hvalbeina í garðinum Skrúði í Dýrafirði, auk vinnu að gerð sýningar og upplýsingaskilta um sögu beinanna, vörslu og endurgerð þeirra.

31. Stofnun Local Food Store, Heimamarkaðsbúðar - 1.000.000,-
Stofnun matvælaklasa á Hornafirði, þar sem markmiðið er að kynna vörur héraðsins undir einu merki.

32. Heilsuþorp - 1.000.000,-
Samstarfsverkefni um stofnun heilsuþorps á Flúðum, Hrunamannahreppi.

33. Snorralindir við Deildartunguhver - 1.000.000,-
Heilsuböð í anda Snorra Sturlusonar við Deildartunguhver í Borgarfirði.

34. Skrímslasetur - 1.000.000,-
Uppsetning Skrímslaseturs á Bíldudal. Setrinu er ætlað að sýna og kynna allan þann fjölda frásagna af skrímslum sem lifað hafa með íslensku þjóðinni í aldir.

35. Ísbjarnarævintþrið - 525.000,-
Uppsetning sýningar um hvítabirni og hafís í Hillebrandtshúsinu á Blönduósi.

36. Hestvagnar á Akureyri - 500.000,-
Ferðir í hestvögnum með leiðsögn um Oddeyrina og í innbæ Akureyrar.

37. Menningarleg tækifæri í Vestmannaeyjum - 500.000,-
Greining og úrvinnsla á menningarlegum tækifærum í Vestmannaeyjum.

38. Göngu- og gleðivikan „Á fætur í Fjarðabyggð“ 2009 - 500.000,-
Göngu- og gleðivika í Fjarðabyggð, með áherslu á menningu og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.

39. Uppbygging Hverahólmans í Grafarhverfi - 500.000,-
Uppbygging aðstöðu og bætt aðgengi fyrir ferðamenn í Hverahólma í Hrunamannahreppi.

40. Bændagolf á Langanesi - 190.000,-
Uppbygging 10 holu golfvallar til reksturs bændagolfs að Ytra Lóni á Langanesi.  

Sjá frétt á vef Ferðamálstofu.

Birt:
29. apríl 2009
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Náttúran.is fær styrk til frekari þróunar Græna Íslandskortsins“, Náttúran.is: 29. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/29/natturan-faer-styrk-til-frekari-throunar-graena-is/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. maí 2014

Skilaboð: