Námstefna Vistverndar í verki „Menntun til sjálfbærni - sjálfbær lífstíll - sjálfbær fyrirtækjarekstur - sjálfbær samfélög“ verður haldin að Sólheimum í Grímsnesi dagana 3.-5. október 2008.

Ætlunin með námskeiðinu er að hleypa nýju blóði í æðar Vistverndar í verki á Íslandi. Frumkvöðlar verkefnisins þau Marilyn og Alexander Mehlmann koma til landsins til að leiðbeina á námsstefnunnni en þau hafa unnið að því að útbreyða verkefnið í Evrópu og víðar undanfarin 18 ár. Peter van Luttervelt frá Hollandi leiðbeinir einnig á námsstefnunni en hann hefur þróað og starfað mikið við GAP vinnustaðaráðgjöf og unnið með Marilyn og Alexander að þróun og námskeiðahaldi í tengslum við GAP.

Námskeiðið er haldið á ensku og er opið leiðbeinendum og staðbundnum stjórnendum Vistverndar í verki og öðru áhugafólki. Hægt er að skrá sig á heimasíðu Landverndar.
 
Nánari upplýsingar veitir Sigrún Pálsdóttir, verkefnisstjóri Vistverndar í verki hjá Landvernd, í síma 552 5242 eða senda fyrirspurn á vistvernd@landvernd.is.

Námskeiðslýsing:

Marilyn og Alexander Mehlmann: Visthópaverkefnið á Íslandi verður tekið til umfjöllunar og farið í gegnum grundvallarþætti þess og uppbyggingu. Um leið verður farið í aðferðir við þróun verkefna (program design). Skoðaðir verða möguleikar og leiðir til að þróa verkefnið og aðlaga að mismunandi aðstæðum og markhópum og unnið að framtíðarstefnumótun Vistverndar í verki. Þar skipta umræður og innlegg frá þátttakendum um sýn þeirra og reynslu af verkefninu miklu máli. Fjallað verður um leiðir til að virkja fólk til þátttöku í Visthópum og efla áhuga þess (empowerment). Sagt verður frá ólíkum útgáfum GAP í öðrum löndum svo sem netverkefni og skólaverkefni.

Peter van Luttervelt, kynnir vinnustaðaráðgjöf en hún nýtur sívaxandi vinsælda víða um heim. Markmið með vinnustaðaverkefninu er að hagræða í rekstri vinnustaða og er uppbygging verkefnisins svipuð og í visthópaverkefni heimilanna. Í GAP vinnustaðaverkefni er starfsfólk virkjað, það fræðist og velur markmið og leiðir eftir áhuga og eigin upplifun á mikilvægi. Þetta er góð leið til að vekja áhuga fólks, leiða það framhjá hindrunum og að leyfa því að upplifa umhverfismál á jákvæðan hátt.

Í texta frá GAP International segir: ‘In GAP we have worked since 1990 to promote action for sustainability through a process of empowerment, so that people make conscious decisions to change their own behaviour. The results are – to quote researchers from a Dutch university – ‘spectacular’. A program of employee empowerment can often bring as much, in terms of resource savings and other sustainability measures, as investment programs costing many times as much. And when the two are combined, the synergy effects can be remarkable.’

Ágrip um Vistvernd í verki:
Vistvernd í verki er alþjóðlegt fræðsluverkefni sem þróað hefur verið til að stuðla að sjálfbærum lífstíl fólks um allan heim. Verkefnið varð til í Bandaríkjunum í kringum árið 1990 og var formlega kynnt á alþjóðavettvangi á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro árið 1992. Síðan hefur það náð fótfestu í mörgum Evrópulöndum og einnig í Asíu og hefur Marilyn og skrifstofa hennar í Svíþjóð verið þungamiðja þessarar útbreiðslu og alþjóðatengsla.

Í upprunalegri mynd byggir verkefnið á þátttöku heimila í visthópum sem fara saman í gegnum námsefni og áætlanagerð um breytingar á lífsstíl og í heimilishaldi. Módelið reynist afar árangursríkt enda útpælt frá félag- og menntavísindalegum sjónarmiðum. Í mörgum löndum hafa skrifstofur GAP þróað upprunalega módelið til notkunar á ýmsum vettvangi en í hvívetna þó reynt að gleyma ekki mikilvægustu stoð verkefnisins sem er „empowerment“ eða efling og vísar til þess að einstaklingurinn öðlist þá tilfinningu að hann geti sjálfur haft áhrif á hlutina, bæði í eigin lífi og í samfélaginu og að athafnir hans skipti máli. GAP hefur það að leiðarljósi að í öllum verkefnim sé
hægt að sýna fram á mælanlega eða sjáanlega breytingu í lífsstíl eða hegðun.

Fyrir einu og hálfu ári var í fyrsta sinn stofnuð stjórn alþjóðasamtaka GAP sem gefur möguleika á meiri samlegðaráhrifum, sameiginlegum verkefnum, söfnun og dreifingu upplýsinga og reynslu og öflunar styrkja. GAP hefur hlotið viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna sem verkefni sem falli vel að stefnu „áratugar menntunar til sjálfbærrar þróunar“ og hefur því umboð til að nota merki áratugarins. Sjá vef Vistverndar í verki.

Birt:
14. september 2008
Uppruni:
Landvernd
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Menntun til sjálfbærni “, Náttúran.is: 14. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/14/menntun-til-sjalfbaerni/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: