Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum hefur aukist mikið
Fjármálaráðuneytið vinnur nú að heildarstefnumótun um skattlagningu ökutækja og eldsneytis.
Markmiðið er að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Enn er fyrirhugað að hluti skattlagningar verði eyrnamerktur samgönguframkvæmdum auk almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.
Bílafloti landsmanna hefur vaxið mjög að undanförnu. Í árslok 1990 voru skrásett ökutæki 134.000 en þau eru nú 292.000, sem er meira en tvöföldun. Enda þótt bílar ný ti orku almennt betur en áður og akstur á hvert ökutæki hafi minnkað þá hefur heildarorkunotkunin aukist næstum því jafn mikið og fjölgun ökutækja.
Að mati Vegagerðarinnar hefur losun koltvísýrings (og þar með annarra gróðurhúsalofttegunda) aukist um 60% frá 1990 til 2006, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Orkunotkun hefur haldið áfram að aukast þótt það kunni að hafa dregið úr vaxtahraðanum. Vegagerðin telur að losun díselbíla á fyrri hluta umrædds tímabils sé hugsanlega vanmetin.
Samkvæmt Kyoto-bókuninni við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland heimild til að auka almenna losun gróðurhúsalofttegunda í heild um 10% frá 1990 til meðaltals áranna 2008-2012. Í ný legri samþykkt ríkisstjórnarinnar um samningsmarkmið Íslands varðandi samdrátt í losun eftir 2012 kemur fram stuðningur við að iðnríkin dragi umtalsvert úr losun á næstu áratugum. Ljóst er að aukin losun frá samgöngum hér á landi hefur verið mun meiri en önnur aukning og því mikilvægt að draga úr henni til að markmið um heildarlosun náist.
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 13. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Birt:
Tilvitnun:
Fjármálaráðuneytið „Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum hefur aukist mikið“, Náttúran.is: 18. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/18/losun-groourhusalofttegunda-fra-vegasamgongum-hefu/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.