Borgþór Magnússon plöntuvistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands mun á næsta Hrafnaþingi, í dag miðvikudaginn 28. mars, flytja erindi sitt „Gróðurframvinda í lúpínubreiðum endurmetin“.

Sumarið 2011 var farið á 15 svæði á landinu þar sem gróðurframvinda í lúpínubreiðum hafði verið rannsökuð um 20 árum áður. Á svæðunum hefur lúpína vaxið í 35–60 ár og breiðst út við mismunandi skilyrði. Reynt var að endurtaka mælingar á sömu stöðum til að fá fyllri mynd af endingu lúpínu og gróðurbreytingum sem henni fylgja. Fyrstu niðurstöður sýna að gróðurframvinda í lúpínubreiðum er mjög misjöfn eftir landshlutum og staðháttum eins og fram kom í fyrri rannsóknum. Sumarið 2011 voru komin fram eindregnari merki en áður um hörfun lúpínunnar á elstu vaxtarstöðum hennar á suðvestanverðu landinu. Dæmi um það eru gamlar breiður í Heiðmörk þar sem lúpína tók að gisna verulega eftir 25–30 ár í landi. Í Múlakoti í Fljótshlíð var lúpína hins vegar enn til staðar og gróskuleg eftir 60 ára veru. Rannsóknirnar 2011 staðfesta að lúpína breiðist auðveldlega inn á mólendi á Norðurlandi og gjörbreytir gróðurfari þar. Úrkoma getur takmarkað vöxt lúpínu norðanlands og finnur hún betri vaxtarskilyrði í mólendi en á þurrum melum. Í mólendinu myndar hún því þéttari og langlífari breiður og verður framvinda þar allt önnur en á melum á sömu stöðum. Í Hrísey á Eyjafirði hefur skógarkerfill lagt undir sig lúpínubreiður á undanförnum árum. Þar gafst í fyrsta sinn færi á að kanna gróður í kerfilsbreiðum og fá vísbendingar um hvers er að vænta í landi sem skógarkerfill leggur undir sig.

Í erindinu verður í máli og myndum greint frá helstu niðurstöðum sem liggja fyrir eftir sumarið 2011 og breytingum sem orðið hafa á rannsóknasvæðunum á síðustu 20 árum.

Erindið verður flutt í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð kl. 15:15-16:00. Sjá kort.

Hrafnaþing er opið öllum. Verið velkomin!

Ljósmynd: Ung lúpína, Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
28. mars 2012
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands „Gróðurframvinda í lúpínubreiðum endurmetin - Hrafnaþing í dag“, Náttúran.is: 28. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/28/grodurframvinda/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: