Samfélags- og umhverfisvænn bankarekstur
Þrír norrænir bankar hljóta náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2010. Allir grundvalla þeir starfsemi sína á sjálfbærni. Þetta eru Merkur Andelskasse í Danmörku, Ekobanken í Svíþjóð og Cultura Bank í Noregi.
Stjórnmálamenn forðuðu nokkrum af stærstu bönkum heims frá falli árið 2008 til að koma í veg fyrir allsherjar öngþveiti sem orðið hefði við fyrirsjáanlegt gjaldýrot þeirra. Gríðarleg innspýting til banka af fé skattgreiðenda vakti reiði almennings og stjórnmálamenn stóðu frammi fyrir grundvallaruppgjöri gegn spilltu fjármálakerfi og spákaupmennsku. Tveim árum eftir hrun eru frumdrög að hertum reglum um fjármálakerfið að taka á sig mynd. Lítilsháttar breytingar hafa orðið á regluverki en engin grundvallarbreyting. Áróðursmeistarar fjármálaheimsins eru klókir og áhrifamiklir og hafa eins og fyrir hrun einsett sér að stefna í þá átt sem þeim sjálfum hentar.
Þegar og ef næsta hrun verður munum við standa í nákvæmlega sömu sporum og 2008. Margir bankar eru of stórir til að falla og þess vegna munu ríkisstjórnir hlaupa undir bagga enn á ný. Stjórnmála- og bankastarfsmenn hafa átt í önnum við að móta starfsramma til að koma í veg fyrir annað hrun. Þeim er fullljóst að ef ný ógæfa dynur yfir af fullum þunga er engin von um björgun.
Rík ástæða er til að viðurkenna undirliggjandi orsakir fjármálakreppunnar sem eru inngrónar í rekstrarmódel bankanna og rörsýn þeirra á skjótfenginn gróða sem þróast hefur síðustu áratugi.
Peningar hafa rifið sig lausa frá hagkerfinu og "sjálfstæður fjármálamarkaður" hefur verið búinn til. Ekki þykir óeðlilegt að unnt sé að græða peninga á því einu að færa þá til og frá í stað þess að skapa raunveruleg verðmæti í raunverulegu hagkerfi.
Á fjármálamörkuðum er unnt að græða hratt, í rauninni á fáeinum mínútum. Að því leyti er fjármálamarkaðurinn stórhættulegur samkeppnisaðili við raunverulega framleiðslu hvort sem málið snýst um að laða að fjármagn eða mannauð. Margt afburða fólk í fjármálageiranum vinnur við að úthugsa flóknar fjármálaafurðir sem samfélagið nýtur einskis góðs af heldur flýtur um á hringekju. Verðmæti sem þegar hafa verið framleidd en eru sett í huliðsbúning sem fáir sjá í gegn um. Ógagnsæjar "fjármálaafurðir" voru ein af höfuðorsökum kreppunnar. Fátt er betra fyrir gengi hlutabréfa en væntingar um að fyrirtæki græði mikið í framtíðinni. Slík spilaborg gerir eigendum ekki aðeins kleyft að stinga í vasann innkomu dagsins heldur einnig framtíðartekjum! Með því að tengja laun framkvæmdastjóra við gengi hlutabréfa verða freistingar mönnum ofviða eins og sannast hefur í því að bankar keyptu hlutabréf í sjálfum sér til að halda uppi hlutabréfaverði. Þetta skammsýna og sjálfmiðaða rekstrarmódel ber feigðina í sér og má líkja við línudans yfir botnlausu hyldýpi.
Hefðbundin bankastarfsemi felst í því að móttaka og ávaxta sparnað og miðla áfram í formi lána til að uppfylla raunverulegar þarfir í samfélaginu og taka þátt í þróun þess. Bönkum er ætlað að vera farvegur fyrir peninga og mynda grunn fyrir heilbrigða innviði samfélagsins. Þetta er verkefni bankanna sem þarf að leysa á rekstrarlegum forsendum en reksturinn sem slíkur á ekki að vera verkefnið. Að sjálfsögðu eiga bankar að hagnast en að gróði sé forgangsatriði er að snúa hlutunum á hvolf. Hagnaður sem byggir á siðfræði og vistfræði dregur úr umhverfis- og útlánaáhættu.
Verðlaunabankarnir hafa notið vaxandi velgengni og trausts almennings á Norðurlöndum. Þeir, ásamt vaxandi fjölda banka, þjóna samfélaginu af réttlæti og sanngirni og efla umhverfis- og félagslega sjálfbærni til langs tíma með því m.a. að renna stoðum undir lífræna fæðuframleiðslu, sjálfbæra orku og mannsæmandi atvinnu- og búsetuúrræði fyrir alla þjóðfélagshópa.
Af niðurstöðum fjögurra rannsókna sem gerðar voru á umhverfis- og samfélagsframmistöðu íslenskra og norrænna banka á árunum 2000-2005 mátti álykta að umhverfisstjórnun væri vaxandi þáttur í starfsemi fjármálafyrirtækja, en fyrst og fremst vegna eigin hagsmuna, ekki vegna hagsmuna samfélags, náttúru né umhverfis. Siðfræðileg álitamál voru ekki ígrunduð. Umhverfisstjórnun íslenskra banka laut að innri starfsemi, hagræðingu í rekstri og ímyndaruppbyggingu sem tengist landgræðslu og skógrækt. Áhættumat vegna útlána var ekki unnið út frá umhverfissjónarmiðum, heldur sem samhengi áhættu og arðsemi. Í rannsókninni var umhverfis- og samfélagsframmistaða mæld. Íslensku bankarnir hlutu frá engu stigi upp í 7 af 12 stigum mögulegum. Norrænu bankarnir Nordea, Sampo og Storebrand hlutu 11 stig, WB, EBRD og NIB 12 stig en efstur var MERKUR með 17 stig. Hugmyndafræðin sem verðlaunabankarnir byggja rekstur sinn á og þekkingin sem rannsóknirnar leiddu í ljós var ráðamönnum þjóðarinnar og lykilfólki í bönkum í hendi fyrir hrun.
Samfélagið og bankarnir standa á vegamótum og geta lært af biturri reynslu bankahrunsins. Árangur verðlaunabankanna sýnir að ný og framsækin hugsun hefur sannað sig og knýr á um áherslubreytingar í stefnumótun og rekstri fjármálafyrirtækja ekki aðeins á Íslandi heldur um víða veröld. Markmiðið er stöðug velferð í samfélaginu með sjálfbærni að leiðarljósi. Siðfræði er fyrsta boðorðið af þremur í þessu samhengi, hin tvö eru vistfræði og hagfræði.
Birt:
Tilvitnun:
Steinn Kárason, Lars Pehrson „Samfélags- og umhverfisvænn bankarekstur“, Náttúran.is: 3. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/03/samfelags-og-umhverfisvaenn-bankarekstur/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.