Orkunotkun - viðmið
Það eru til nokkur orkumerki í heiminum í dag og það þekktasta er líklega „Energy Star“ sem er orkumerki sem er upprunnið og í umsjá Umhverfisstofnunar og Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna. Eins og gefur að skila þá ná flest orkumerki yfir rafmagnsvörur. Almennt má segja að sú orka sem fellur á einungis brot af jörðinni nægir til allra þarfa mannfólksins og því sé enginn skortur á orku. Vandamálið er bara að við höfum ekki lært að beisla hana á vistvænan og hægkvæman máta nema í mjög litlum mæli. Þess vegna er verið að nota jarðefnaeldsneyti, bensín, dísilolíu og kol til rafmagnsframleiðslu, húshitunar og flutninga.
Íslendingar eru þeirrar gæfu aðnjótandi að jarðefnaeldsneyti er hvorki notað til húshitunar né rafmagnsframleiðslu (nema í mjög litlum mæli). Samt er losun gróðurhúsalofttegunda lítið minni á Íslandi en erlendis og orkunotkun á mann ein sú mesta í Evrópu. Stafar það fremst af stórum fiskiskipaflota og stóriðju. Að rafmagn á íslandi sé að mestu leyti frá vatnsaflsvirkjunum þýðir ekki að við getum leyft okkur að nota rafmagn eins og við viljum. Í fyrsta lagi kostar rafmagn, í öðru lag valda vatnsaflsvirkjanir vissum umhverfisspjöllum og í þriðja lagi gætu íslendingar flutt út meira rafmagn en þeir gera í dag, eða nýtt til annarra þarfa, ef við göngum vel um þessa auðlind sem vatnsaflsvirkjanir eru. Öll stóriðja er óbeinn útflutningur á rafmagni. Rafmagn er til dæmis staðkvæmdarvara fyrir aðra orkubera eins og bensín og olíu. Minnki íslendingar t.d orkunotkun sína þá væri hægt að nota þann sparnað til framleiðslu vetnis sem vonandi verður hægt að nota í staðinn fyrir bensín og olíu til samgangna innan allt of margra ára. Þetta er einfaldað dæmi til að sýna að allt hangir þetta á sömu spýtu, orkusparnaður á heimili eða vinnustað sparar ekki bara peninga heldur einnig umhverfið.
Orkunotkun
Einfaldasta leiðin til að kaupa hagkvæmustu tækin er að skoða orkunotkun. Orkunotkun er yfirleitt mæld í wöttum (W), kílówöttum (kW), kílówattsstundum (kWst) eða magni eldsneytis.
Samband W, kW og kWst
Orkunotkun raftækja er yfirleitt mæld í W, til dæmis 60 watta ljósapera. Eitt kílówatt eru 1000 W. Það má því einnig skrifa 60W sem 0,06 kW. Ein kWst samsvarar einu kW sem er notað eða framleitt á einni klukkustund. 60W ljósapera sem logar í 16 tíma og 40 mínútur notar eina kWst af rafmagni.
Nýtni orku
Nýtni orku er sjaldnast 100%. Megnið af orkunni í 60W ljósaperu er ekki notuð til að lýsa heldur fer megnið í hita. Það er hægt að ná samsvarandi ljósi úr orkusparandi ljósaperu sem er einungis um 11W. Kílóvatttími kWh er sama og vött* fjöldi tíma /1000. Fjöldi tíma í árinu er 8760 (365*24). Ein 40 vatta ljósapera sem lýsir í eitt ár dregur því um 350 kWh sem kosta tæplega 3000 krónur. Að vera með nokkrar svona perur sem lýsa að óþarfa kostar því.
Orkunotkun
Orkunotkun er hægt að gefa upp á nokkuð mismunandi máta. Fyrir rafmagnsvörur og ljósaperur er eðlilegast að gefa upp orkunotkun í vöttum. Fyrir bifreiðar er algengast að orkunotkun sé gefin upp sem eldsneytiseyðsla, þ.e eyðsla fyrir hverja 100 km. Með tilkomu nýrra eldsneytisgjafa er einnig farið að gefa upp orkunotkun óbeint með því að tilgreina magn koltvísýrings á hvern ekinn kílómeter. Bíll sem eyðir 10 lítrum á 100 km sleppir til dæmis út 230 grömmum af koltvísýring á hvern ekinn kílómetra. Fyrir ýmis rafmagns eða eldsneytisknúin tæki er orkunotkun gefin upp í vöttum (W) eða eldsneytisnotkun á klukkutíma. Hitatap ýmis byggingarefnis, eins og til dæmis glugga, er mælt varmaleiðnistuðli, stundum kallað kólnunartala. Kólnunartalan er mæld sem vött á fermetra og gráður celsíus (W/m2°C) og er notuð til að mæla þá orku sem til dæmis tapast í gegnum hvern fermetra af glugga. Því lægri sem kólnunartalan er því minna er hitatapið í gegnum viðkomandi glugga/einangrunarefni. Á Íslandi á allt íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði þar sem fólk dvelst að staðaldri til dæmis að hafa einangrunargler með kólnunartöluna lægri en 2,0 w/m2.
Grafík: Tákn sem notað er eingöngu hér á vefnum þegar fjallað er um orku almennt ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Finnur Sveinsson „Orkunotkun - viðmið“, Náttúran.is: 2. september 2010 URL: http://nature.is/d/2007/03/28// [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 28. mars 2007
breytt: 2. september 2010