Afstaða umhverfisráðherra óskiljanleg - Landvernd
Í fréttatilkynningu frá Landvernd segir:
Umhverfisráðherra hefur hafnað þeirri kröfu Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings að taka til frekari skoðunar mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar.
Umhverfisráðherra segir í bréfi til Péturs að ráðuneytið líti svo á að því beri að túlka lög sem heimila endurupptöku mála mjög þröngt. Umhverfisráðherra virðist með þessu sýna varúðarreglunni lítinn skilning, en varúðarreglan er ein megin grunnregla í umhverfisvernd.
Pétur heldur því fram að ráðuneytinu hafi í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum vegna lagningar Gjábakkavegar í maí s.l. láðst að taka tillit til mikilvægra upplýsinga um málið sem vörðuðu megin forsendur kæru hans. M.a. hafi ráðuneytið ekki skoðað bréf undirskrifað af flestum vatnalíffræðingum og vatnafræðingum sem starfa við rannsóknir á Íslandi. Í bréfinu tóku þessir fræðimenn undir málflutning Péturs um hugsanleg neikvæð áhrif vegagerðar á vatnið. Áður höfðu allar helstu stofnanir á þessu fagsviði, m.a. Umhverfisstofnun, tekið undir málflutning Péturs. Pétur taldi því að ráðuneytinu bæri að taka málið upp aftur.
Þá benti Pétur á í erindi sínu til umhverfisráðherra að ekki hafi verið tekið tillit til mikilvægra upplýsinga þess efnis að vegagerð skv. áformum Vegagerðarinnar, að mati formanns Heimsminjanefndar Íslands, geti skaðað stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Ráðherra viðurkennir að í úrskurðinum hafi þessi afstaða ekki komið fram en segir að ráðuneytinu hafi verið kunnugt um hana þegar úrskurður var uppkveðinn. Ráðuneytið hefur því, ef marka má svar ráðherra, vísvitandi stofnað stöðu Þingvalla á heimsminjaskrá í hættu með því að samþykkja það vegastæði sem Vegagerðina sækist eftir. Þess ber að geta þessi þáttur málsins er nú kominn til athugunar hjá Heimsminjanefnd UNESCO sem heldur fund í júlí 2008.
Að mati Péturs hefur umhverfisráðherra valið að túlka möguleika til endurupptöku málsins með sjónarmið Vegagerðarinnar að leiðarljósi, en ekki náttúruverndar. Eitt mikilvægasta hlutverk umhverfisráðherra er að stand vörð um náttúru Íslands. Pétur telur að afstaða umhverfisráðherra sé óskiljanleg og að hann virðist því með þessari ákvörðun hafa brugðist því hlutverki að standa vörð um náttúru landsins.
Nú er verið að athuga möguleika á að fá málið tekið upp til frekari skoðunar hjá dómsstólum.
Frekari upplýsingar veita: Pétur M. Jónasson 45 3532 1916 og Tryggvi Felixson 45 4921 1955.
Efsta myndin er af umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur, sú neðri t.v. af Pétri Mikkel við Þingvallavatn og sú neðsta er tekin í átt að Þingvallabænum. Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Afstaða umhverfisráðherra óskiljanleg - Landvernd“, Náttúran.is: 1. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/01/afsta-umhverfisrherra-skiljanleg/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. mars 2008