Þarftu raunverulega nýja tölvu?
Þegar gamla tölvan er orðin hæg og þreytt er oft nóg að auka RAM eða vinnsluminni tölvunnar (RAM = Random Access Memory). Einnig er hægt að skipta um skjákort með litlum tilkostnaði. Örgjörvinn getur einnig verið orðinn hægur og er hægt að skipta um örgjörva og viftu án mikilla erfiðleika á mörgum borðtölvum. Ef harði diskurinn er orðinn fullur, þá er hægt að hafa tvo harða diska á sömu tölvunni, skipta úr þeim sem fyrir er með stærri eða nota lausan flakkara.
Stundum er líka hægt að fækka viðbótum, slökkva á sjónrænu sjónarpili (MS Vista), hreinsa til á harða diskinum og endurraða gögnum á hann (Defragment). Eins má setja gamlan póst í geymslu (Archive) og koma eldri gögnum í varðveislu á lausum diskum eða brenna á geisladiska. Rétt er að hafa í huga að allir harðir diskar gefa sig einhverntíma og þá er gott að eiga afrit af mikilvægum gögnum.
Ef ákveðið er að kaupa nýja tölvu, þá er margt sem þú getur gert til þess að draga úr umhverfisáhrifunum. Þú getur notað gömlu músina og gömlu hátalarana og gamla skjáinn áfram þótt þú kaupir nýja tölvu. Forðastu að kaupa pakka þar sem allt er innifalið. Það er líka dýrara. Kannski getur þú keypt notaða tölvu. Gættu þó að því að hún sé ekki þýfi eða léleg eftirlíking. Leitastu við að kaupa tölvu sem er umhverfismerkt eða merkt með TCO 03. TCO merking nær eins og Svansmerking yfir vinnufræðilega þætti og vinnuumhverfi (Ergonomi).
Næstum allar tölvur eru með Energy Star orkumerkinu. Að velja tölvu sem er ekki með Energy Star er hrein orkusóun. Tölvur með umhverfismerkinu Svaninum og Blóminu eru einnig fáanlegar. Fargið tölvum sem rafmagnsúrgangi. Það er margt verðmætt í notuðum tölvum s.s. silfur, kopar og gull, auk þess sem mikið af innihaldi þeirra eru hreinlega skaðleg umhverfinu. Sjá myndband um hvernig tövur eru endurunnar rata rétt leið til endurvinnslu.
Birt:
Tilvitnun:
Náttúran „Þarftu raunverulega nýja tölvu?“, Náttúran.is: 13. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2007/04/13/tlvur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. apríl 2007
breytt: 13. mars 2011