Hér á eftir fara punktar af blaðamannafundi með Evu Joly, Jóni Þórissyni, Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Björk Guðmundsdóttur í Norræna húsinu um Magma-málið í gær.

Oddný Eir Ævarsdóttir hóf fundinn á að gera viðstöddum grein fyrir stöðu mála og aðdraganda þess að Eva Joly hafi nú bæst í hóp þeirra sem vinna að því að vinda ofan af kaupum Magma Energy Sweden AB á 98% hlut í HS Orku. Oddný Eir sagði frá umræðufundi um skýrsu nefndar um auðlinda- og orkumál en nefndinni var falið það hlutverk að skoða réttmæti sölunnar. Oddný Eir dró saman punkta af fundinum og niðurstöðum nefndarinnar sem gat ekki tekið af vafa í málinu. Ástæðan er veikleiki laganna en lögunum var smám saman komið í það horf að auðvelt væri að sniðganga þau en þó liggja laganna megin. Gömlu lögin kveða skýrt á um að auðlindir landsins skulu vera í eigu þjóðarinnar en þeim var breytt uppúr 2002 þannig að hægt væri að sniðganga þau, með lagalegum hætti þó. Nefndinni var því vandi á höndum að komast að niðurstöðu því samkvæmt lagabókstafnum væri hægt að réttmæta það að Magma Energy Sweden AB, skúffufyrirtæki Magma Energy í Kanada keypti ráðandi hlut í orkufyrirtæki á Íslandi, landi á Evrópska efnahagssvæðinu, jafnvel þó að það væri ekki í anda laganna enda eiga auðlindir landsins að vera í eigu þjóðarinnar.

Eins og Benedikt Erlingsson fundarstjóri á Magma-fundinum þ. 7. október sagði þá má líkja lögunum nú við merkingar á sundstað þar sem á skilti stendur „aðeins fyrir konur“ en í næstu línu stendur „en líka fyrir suma karla“ og í þriðju línu stendur „einnig fyrir þá sem eru í sandölum framleiddum í Svíþjóð“. Með öðrum orðum; lögin eru meingölluð og galopna í raun leiðina fyrir hvern sem er að kaupa upp auðlindir Íslendinga. Andleysi núverandi laga hlítur að kalla á endurskoðun orkulaga og orkustefnu okkar í heild sinni.

Kaup Magma á HS Orku var í raun snilldar lagasniðganga og gerð möguleg með fulltyngi innlendra aðila sem sjá sér hag í því að sópa til sín auðlindum þjóðarinnar.

Björk talaði um að mikilvægt væri að halda undirskriftasöfnuninni á www.orkuaudlindir.is áfram og fá a.m.k. 15 þúsund undirskriftir í viðbót við þær 20 þúsun sem safnast hafa sem myndi þá vera nógu stórt hlutfall þjóðarinnar til að skora á Alþingi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um orkuauðlindir landsins.

Ross Beaty héldi því fram að um endalausa nýtingu gæti verið að ræða úr jarðvarmavirkjunum þegar staðreyndin sé sú og eins og Stefán Arnórsson jarðfræðingur benti á á fundinum þ. 7. október að aðeins sé hægt að nýta heit svæði í um 50 ár og þau þurfi síðan a.m.k. 1000 ár til ná að jafna sig og hitna nægilega upp aftur til hægt sé að virkja þar á ný, jafnvel lengri tíma. Jarðvarmi er eins og aðrar orkuauðlindir, það sem af er tekið fyllist „ekki“ sjálfkrafa aftur. Það er útbreyddur misskilningur að jarðvarmahvolf séu óþrjótandi auðlindir. Endurnýjanlegar orkuauðlindir (Renewable energy sources) eru því alls ekki endurnýjanlegar á þann hátt sem að nafnið gefur til kynna.

Jón Þórisson talaði um það sem að hópurinn hefði gert til að nálgast upplýsingar um söluna frá opinberum aðilum á grundvelli upplýsingalaga. Engar upplýsingar hefðu komið fram. Einungis hafi verið hægt að fá staðfest frá Iðnaðarráðuneytinu að einhverjir fundir hafi verið haldnir en hvað rætt var á fundunum eða hvaða ákvarðanir hafi verið teknar voru engar upplýsingar gefnar um. Frá öðrum aðilum komu engin svör. Slíkt stangast á við upplýsingalög og er næsta skref því að setja fram kæru og fylgja málinu eftir alla leið til dómstóla dugi ekki annað til. Það sé ekki ásættanlegt að við eigendurnir þ.e. íslenska þjóðin hafi ekki aðgang að upplýsingum um afgreiðslu mála sem varða sölu á eigum okkar þ.e. auðlindunum.

Eva Joly tók við af Jóni Þórissyni og byrjaði á að taka fram að hún kæmi fram sem vinur Íslendinga og að hún hafi nú lokið störfum sem ráðgjafi sérstaks saksóknara. Hún ítrekaði að það væri ekki stefna Evrópusambandsins að einkavæða auðlindir þó að því væri oft haldið fram. Sambandslöndunum sé frjálst að haga þeim málum eins og þeim hentar.

Eva Joly hélt áfram og sýndi mynd þar sem skuldugustu OECD ríkjum heims er raðað upp eftir skuldastöðu en Ísland er þar langskuldugasta ríkið. Jafnvel 10 ný álver kæmust ekki nálægt því að greiða niður skuldir okkar. Staða Íslands sé því mjög alvarleg og því grundvallaratriði að við höldum vel utan um auðlindir okkar og gloprum þeim ekki í hendurnar á öðrum en okkur sjálfum og komandi kynslóðum.

Síðan tók Eva Joly við að segja utan og ofan af fyrirtækinu Magma Energy og rökstuddi ástæður þess að hér væri ekki aðeins um lélegan samning að ræða heldur væri Magma Energy mjög vafasamt fyrirtæki í alla staði þegar það væri skoðað ofan í kjölinn. Í stjórn Magma sitja t.a.m. aðeins starfsmenn Magma og menn beintengdir fyrirtækinu og eigandinn Ross Beaty sjálfur, sem segir ekki annað en að stjórnin sé vafasöm sem eftirlitsaðili innan fyrirtækisins. Fyrirtækið er stofnað 2008 og hefur að meginstefnu að verða leiðandi pure-play (?) alþjóðlegt jarðhitafyrirtæki (Leading Pure-Play Global Geothermal Power Company). Fyrirtækið hefur aðeins einn annan stað í heiminum þar sem eitthvað er verið að gera á eða í Soda Lake Nevada og eins og segir á vef fyrirtækisins tvær virkjanir á Íslandi, Svartsengi og Reykjanes. Það er því tóm tjara að tala um að Magma Energy sé með reynslu á sviði jarðvarmavirkjana og leiðandi fyrirtæki á því sviði í heiminum í dag. Aftur á móti er heilmikið sem mælir með því að hér sé um „scam“ að ræða, yfirtöku í samráði við innlenda aðila. Það sé með einsdæmum að Magma Energy hafi verið gert mögulegt að fá HS Orku keypta með láni frá seljendanum sjálfum, á 1,5% vöxtum og með veði í bréfunum sjálfum. Samningurinn hafi verð ótrúlega slæmur fyrir Ísland eins og Eva Joly orðaði það og full ástæða sé til að fara í sakamálarannsókn á söluferlinu.

Jón Þórisson benti á að Orkuveita Reykjavíkur hafi tapað 9 milljörðum á sölunni og sé það viðurkennd staðreynd. Hann benti á að Ross Beaty hafi logið að fjárfestum þar sem hann hélt því fram að 400 megavött væri að fá úr Reykjanesinu þegar svæðið væri nú þegar ofnýtt en í mesta lagi væri mögulegt að kreista 100 megavött úr svæðinu ef ofnýtt yrði.

Eva Joly endað með því að segja að samningar ættu að vera lausir við svik og Íslendingar ættu að fara fram á að samningurinn verði dreginn til baka vegna þess að við höfum verið höfð að fíflum. Deals should be free from fraud. Iceland should say “We don't want this, we have been fooled !

Á þetta hefur ítrekað verið bent bæði hér á vefnum og af Björk Guðmundsóttur, Láru Hönna Einarsdóttur, Sigmundi Einarssyni og fleirum á undanförnum mánuðum en það styrkir að sjálfsögðu málið gríðarlega að fá manneskju eins og Evu Joly til að vitna um að henni lítist ekki á blikuna og vilji að málið verði rannsakað sem sakamál.

Sjá undirskriftasöfnunina á www.orkuaudlindir.is

Ljósmyndir: Frá fundinum í Norræna húsinu í gær, á efri myndinn eru: Eva Joly, Jón Þórisson, Oddný Eir Ævarsdóttir og Björk Guðmundsdóttir. Neðri myndin er af Evu Joly að sýna mynd skuldugustu OECD ríkjanna, Björk situr henni á vinstir hönd. Ljósmyndari: Lára Hanna Einarsdóttir.

Birt:
14. október 2010
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Eva Joly vill að kaup Magma á HS Orku verði rannsökuð sem sakamál“, Náttúran.is: 14. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/14/eva-joly-vill-ad-kaup-magma-hs-orku-verdi-rannsoku/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: