Áform um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum
Aðalfundur Landverndar, haldinn 3. maí 2008 í Norræna húsinu í Reykjavík, hvetur íbúa Vestfjarða til að hafna áformum um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum fylgir stóraukin og óásættanleg mengunarhætta, bæði staðbundin og ekki síður við strendur landsins, sér í lagi í kringum Vestfirði. Fundurinn fagnar því mikla uppbyggingar- og nýsköpunarstarfi sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Fjórðungssambandið og aðrir aðilar hafa staðið að í landshlutanum, og eins er fagnað nýju Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði og endurvakningu Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða. Fundurinn hvetur íbúa Vestfjarða til að einbeita sér að öðrum og umhverfisvænni leiðum en olíuhreinsunarstöð til að byggja upp og viðhalda atvinnustigi og lífskjörum í einstakri náttúru og fögru umhverfi Vestfjarða.
Greinargerð:
- Spáð hefur verið aukinni umferð risaolíuflutningaskipa á alþjóðlegum siglingaleiðum í kringum landið á komandi árum og kallar það á auknar mengunavarnaaðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda. En olíuhreinsunarstöð fylgir stóraukin umferð slíkra skipa upp við strendur landsins þar sem þau þyrftu að leggjast að bryggju í íslenskri höfn sem hugmyndir eru uppi um að koma fyrir í þröngum firði. Því fylgir veruleg mengunarhætta.
-Sjóleiðin milli Íslands og Grænlands getur verið mjög varasöm í samanburði við aðrar siglingaleiðir á Norður-Atlantshafi sökum veðra og hafíss. Lendi stórt olíuflutningaskip í erfiðleikum nálægt landi í illviðri duga dráttarbátar skammt.
-Minnt er á alvarleg mengunarslys sem orðið hafa í heiminum undanfarin ár vegna strands olíuflutningaskipa. Einnig er minnt á fengsæl fiskimið út af Vestfjörðum og einstakt fuglalíf, þ.á.m. stærstu fuglabjörg Evrópu.
- Olíuhreinsunarstöð fylgir töluverð losun gróðurhúsalofttegunda sem er andstætt stefnu íslenskra stjórnvalda um að draga úr losun.
- Olíuhreinsunarstöð myndi leiða til aukins framboðs á jarðefnaeldsneyti á alþjóðlegum mörkuðum og myndi þannig styrkja olíuhagkerfi heimsins og stuðla að hnattrænni hlýnun sökum aukins útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Olíuhreinsunarstöð samrýmist illa þeirri viðleitni Íslendinga að leggja sitt af mörkum til að heimurinn venji sig af brennslu jarðefnaeldsneytis og taki þess í stað upp hreina og endurnýjanlega orkugjafa.
- Bygging olíuhreinsunarstöðvar gæti haft jákvæð áhrif á hagvöxt á byggingartíma en þegar reiknuð er út þjóðhagsleg hagkvæmni og heildaráhrif slíks verkefnis fyrir þjóðarbúið er hætt við að útkoman gæti orðið önnur. Hið sama á einnig við um önnur stór verkefni sem fela í sér umhverfiskostnað, en hann þarf að taka með í reikninginn samkvæmt viðurkenndum aðferðum.
- Sett er stórt spurningarmerki við hvers konar samfélag myndi skapast við svo stóran vinnustað sem olíuhreinsunarstöð kallar á miðað við aðstæður á Vestfjörðum og hvort verkefnið samrýmist framtíðarsýn um stóriðjulausa Vestfirði. Verkefnið er óraunhæft miðað við núverandi ástand í samgöngumálum svæðisins.
- Þar sem Íslendingar búa ekki enn við landsskipulag (eins og víðast hvar annars staðar) er sett verulega mikil ábyrgð á herðar sveitarstjórnarmönnum í landinu sem fara með skipulagsvaldið, miðað við það sem annars staðar gerist. Samkvæmt núgildandi skipulags- og byggingarlögum hvílir of mikil ábyrgð á herðum sveitarstjórna á Íslandi miðað við hvaða áhrif framkvæmdir geta haft á heildarhagsmuni þjóðarinnar.
- Olíuhreinsunarstöð spillir landslagi í annars stórbrotinni náttúru Vestfjarða. Hætt er við að hrein og fögur ímynd Vestfjarða bíði verulega hnekki verði olíuhreinsunarstöð að veruleika. Stöðin myndi að líkum draga úr möguleikum annarra atvinnugreina s.s. matvælaiðnaðar og hugsanlega ferðaþjónustu. Rétt er að leita annarra leiða.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Áform um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum “, Náttúran.is: 11. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/07/aform-um-oliuhreinsunarstoo-vestfjoroum-landvernd/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. maí 2008
breytt: 11. maí 2008