Húsbúnaðarrisinn IKEA vinnur hröðum skrefum í átt að sjálbærni á heimsvísu en grunnhugmyndafræði keðjunnar hefur frá byrjun verið nátengd ákveðinni skynsemishugsun svo sem ný tni og samlegðaráhrifum stórinnkaupa og hagkvæmra flutninga í flötum kössum. Allt þetta hefur ekki aðeins betri áhrif á umhverfið sem slíkt heldur er uppistaðan í velgengninni og sannar að það að hugsa um umhverfið er ekki aðeins ráðstafanir sem kosta peninga heldur spara þær peninga til lengri tíma litið.

IKEA hætti alveg að nota plastpoka árið 2007 (sjá grein) en á Íslandi er þó enn verið að klára upp plastpokabirgðir en bréfpokarnir og margnota bláu pokarnir eru smám saman að taka yfir. IKEA setti nýlega 77 milljónir dollara í tækniþróun til þróunar vistvænna orkugjafa, t.a.m. í frekari þróun á sólarrafhlöðum (sjá grein). Í dag eru 71% af öllum IKEA vörum endurnýjanlegar eða gerðar úr endurunnu efni, nema hvort tveggja sé. Fyrirtækið endurvinnur 84% af því rusli sem fellur til í verslununum og tekur við notuðum perum og rafhlöðum frá viðskiptavinum og kemur rétta leið í eiturefnaförgun. Í þeim tilfellum þegar að eitt land þar sem IKEA risinn er með verslanir herðir reglur um eiturefna- eða kolefnislosun, samræmir IKEA sínar reglur ströngustu kröfunum. Þegar reglur um formaldhyde losun voru hertar í Japna þannig að þær máttu ekki lengur fara yfir núllmörkin, innleiddi IKEA sömu reglu á rekstur sinn um allan heim. Jafnvel þó að það hafi haft í för með sér aukin útgjöld fyrir fyrirtækið.

Hin stranga alþjóðlega umhverfisstefna IKEA er að sjálfsögðu yfirfærð á reksturinn hér á landi en ef við berum umhverfið hér saman við það sem gerist annars staðar í heiminum stöndum við vel að vígi sérstakleg vegna þess að losun gróðurhúsalofttegunda er ekki eins mikil hér vegna okkar vistvænu orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu. Hvað varðar bílaflotann þá hafa ekki enn verið innleiddar reglur um visthæfan bílaflota fyrirtækisins hérlendis en bílaflotinn hér er kannski ekki það stór að það skipti höfuðmáli. Aðeins þrír bílar eru í keyrslu fyrir IKEA, tveir díselknúnir og einn knúinn bensíni. Það væri óneitanlega til fyrirmyndar að sjá Metanknúna IKEA bíla á götum borgarinnar. Þeirri hugmynd er hérmeð komið á framfæri.

IKEA er nú að vinna í því að uppfræða starfsfólk svo það geti uppfrætt viðskiptavinina og kynna umhverfisstefnu IKEA á nýjum vef en búast má við enn fleiri upplýsingum þar á næstunni. Hér á landi hefur hingað til verið lögð áhersla á samfélagslega þáttinn með styrkjum til verkefna tengdum börnum en það er í takt við sjálfbærar áherslur IKEA á heimsvísu.

Á ikea.com er vel útskýrt hvernig umhverfis- og samfélagsáherslur IKEA eru flokkaðar og skilgreindar en slíkar útskýringar væri að sjálfsögðu gott að fá sem fyrst inn á íslenska vefinn en það hlítur að vera fyrirtækinu í hag að fólk læri að meta hvað það hefur upp á að bjóða enda getur IKEA verið stolt af frammtistöðu sinni.

Mynd af treehugger.com.

Birt:
16. febrúar 2009
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „IKEA og umhverfið“, Náttúran.is: 16. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/09/ikea-og-umhverfio/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. febrúar 2009
breytt: 14. desember 2011

Skilaboð: