Árósarsamningurinn verður fullgiltur á kjörtímabilinu
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra lýsti því yfir á fundi Framtíðarlandsins um Árósarsamninginn í Norræna húsinu í morgun að Árósarsamningurinn yrði fullgiltur á kjörtímabilinu. Hvenær nákvæmlega liggur þó ekki fyrir enda margt sem gera þarf áður en hann getur tekið gildi. Þingsályktunartillagan einsömul tryggi það ekki að almenningi/félagasamtökum verði tryggð aðkoma að skipulagsmálum á réttmætan hátt.
Að sögn Þórunnar eru fyrstu tvö ákvæði samningsins í raun þegar í gildi hér á landi. Aðalmálið sé þó að almenningur fái aðgang að réttlátri málsmeðferð, í tíma. Ákvarða þarf hvort að stjórnsýsluleiðin eða dómsmálaleiðin verði valin en það felur í sér að ákveða verður hvar endanlegt úrskurðarvald skuli liggja, þ.e. hjá skipulagsyfirvöldum eða hjá ráðherra. Með stjórnsýsluleiðinni er rétturinn fólginn í kærurétti en með dómsmálaleiðinni í rétti til að færa mál fyrir dóm. Úr þessu verði að skera áður en hægt er að fullgilda samninginn. Í öllu falli kallar fullgilding samningsins á breytingar á íslenskum lögum.
Salvör Jónsdóttir landfræðingur hjá Alta ítrekaði það sem ráðherra hafði nefnt varðandi það að fyrstu tvö ákvæði samningsins væru í raun í gildi hér á landi en fólk þekkti ekki rétt sinn og gripi því of oft of seint í taumana. Upplýsa þurfi almenning um þann rétt sem þegar er til staðar. Í skipulags- og byggingarlögum stæði t.d. skýrt og greinilega að skipulag þurfi að standast kröfur um sjálfbæra þróun, nokkuð sem að væri í dag frekar illa skilið hugtak enda látið vera að skilgreina það nánar í lögunum. Þess vegna væri því líka ekki fylgt eftir.
Friðrik Sófusson forstjóri Landsvirkjunar sagðist ekki taka afstöðu til samningsins í sjálfu sér enda þurfi að breyta lögum til að hann geti tekið gildi, þetta sé ekki svo einfalt mál því leyfisveiting þyrfti þá að færast til lægra stjórnvalds en ráðherra. Aðalatriðið fyrir framkævmdaraðila sé að skipulagsferlið sé sem styst og það verði ekki þannig að hægt sé að standa í vegi fyrir framkvæmdum á öllum stigum og tefja fyrir.
Spurning úr sal var beint til Friðriks varðandi það hvernig standi á því að fyrirtæki eins og Landsvirkjun geti lofað sveitarfélögum vegum og gsm-sambandi, vatnslögnum og fleira sem að ekki væri í þeirra verkahring að veita. Svar Friðriks var á þá leið að þetta væri heldur ekki lengur á ábyrgð ríkisins og allt þyrfti þetta hvort eð er að gera til að geta farið í framkvæmdir og hangi því á sömu spítunni. Landsvirkjun semji við Vegagerðina, kosti verkið og í flestum tilfellum kaupi síðan Vegagerðin veginn af Landsvirkjun að nokkrum árum liðnum. Hvað vatnið varði sé nauðsynlegt að skaffa vatn og að verið sé að bora eftir neysluvatni undir Ingólfsfjalli til að uppfylla neysluvatnsþörf í Flóahreppi.
Önnur spurning úr sal, spurning frá Björgu Evu var einnig beint að Friðrik og hann spurður um hvaða framkvæmdir væru í gangi við Skarðsfjall og sýndi honum mynd af þónokkru raski á staðnum, mynd tekna úr flugvél af svæðinu. Þar sem að enn hefur ekki verið veitt framkvæmdaleyfi sé furðulegt að hafist hafi verið handa.
Friðrik svaraði því að hann viti ekkert um þetta mál og hafi aldrei séð þessa mynd. Vissulega væri ekki hafist handa við virkjanir sem ekki hafi fengið framkvæmdaleyfi. Þarna hlyti að vera um rannsóknir að ræða af einhverjum toga enda væri rannsóknarleyfi fyrir hendi. Friðrik virtist því ekki ætla að svara þessu neitt nánar en Kolbrún Hallldórsdóttir sagði úr sal sem að laut að því að hún hafi kynnst sér að um rannsóknir væri að ræða.
Þar sem Sól á Suðurlandi sendi plakat (sjá mynd) af framkvæmdasvæðinu í nótt, mynd sem að sýnir glöggt að jarðrask hefur orðið og spyr „hvað þetta eigi að þýða“ þótti undiritaðri tilhlíðlegt að fara þess á leit við Friðrik Sófusson eftir fundinn að hann svari því hvaða framkvæmdir séu nú í gangi við Skarðsfjall enda virtist svo vera á svari Friðriks á fundinum að hann vissi ekkert um neinar framkvæmdir og kæmi hreinlega af fjöllum.
Svar Friðriks barst í tölvupóstu í dag og er svohljóðandi:
Meðfylgjandi er frásögn Helga Bjarnasonar af því sem hefur verið að gerast á undanförnum vikum við Hvamm. Allt er þetta gert skv. fyrirliggjandi ranmnsóknaráætlun. Einhver hafði hringt í Umhverfisstofnun, sem athugaði málið og gerði engar athugasemdir. Kolbrún hafði spurt um þetta í gær og fengið þessi sömu svör eins og hún greindi frá á fundinum í morgun. Það hefði verið auðveldara og eðlilegra fyrir Sól á Suðurlandi að spyrja okkur fyrst í stað þess að senda frá sér plakat sem gefur til kynna að eitthvað óeðlilegt sé á seyði. Við svörum að sjálfsögðu öllum spurningum frá Sól á Suðurlandi og eru tilbúin til að fræða fólk í samtökunum ef það kærir sig um upplýsingar. Landsvirkjun hefur ávallt lagt kapp á að halda sveitarstjórnunum á svæðinu vel upplýstum um öll áform.
Kv. Friðrik Sófusson
Hér að neðan er skýrsla Helga til Friðriks:
Grafnir hafa verið "sprunguleitarskurðir" á fyrirhuguðu stöðvarhússstæði Hvammsvirkjunar og þar sem inntaksmannvirki eru fyrirhuguð. Tilgangurinn er að kortleggja betur staðsetningu hugsanlegra sprungna á svæðinu með það að markmiði að sneiða hjá stærri sprungum og misgengjum eins og kostur er við endanlega staðsetningu mannvirkja. Þessar athuganir hófust um miðjan október og er sprunguleit nú lokið við Hvammsvirkjun. Skurðir eru enn opnir að ósk jarðvísindamanna sem hafa unnið við kortlagningu berggrunnsins. Þessum skurðum verður lokað á næstu dögum strax og þessari kortlagningu er lokið.
Á næstu dögum eru fyrirhugað að grafa skurði við fyrirhugað stöðvarhús Holtavirkjunar til að kortleggja berggrunn á fyrirhuguðu stöðvarhússsvæði við bæinn Akbraut. Þeim skurðum verður strax lokað aftur þegar berggrunnur þar hefur verið skoðaður.
Sérfræðingur Umhverfisstofnunar hafði samband í morgun og sagði að athugasemd hefði borist um óeðlilegt jarðrask í Hvammslandi. Ég tjáði honum að þessi kortlagning væri gerð i samráði við landeiganda og jarðvísindamenn er ynnu að kortlagningu berggrunnsins. Þeir hafa fengið senda rannsóknaráætlun þá sem unnið er eftir vegna útboðshönnunar virkjananna á svæðinu. Einnig munu þeir fá í hendur skýrslur frá okkur um helstu niðurstöður þessara rannsókna þegar þær liggja fyrir.
Sjá skýrslu Árósarnefndarinnar, nefndar sem var skipuð til að fara yfir efni Árósarsamningsins og meta hvaða áhrif hann hefði í för með sér hér á landi yrði hann fullgiltur.Árósarsamningurinn fjallar um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Árósarsamningurinn verður fullgiltur á kjörtímabilinu“, Náttúran.is: 5. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/05/arosarsamningurinn-verour-fullgiltur-kjortimabilin/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. desember 2007