Eldgos í Grímsvötnum, staðan kl.10:40
Að gefnu tilefni er ítrekað að mikið öskufall er á svæðinu frá Mýrdalssandi og austur fyrir Freysnes í Öræfum. Þjóðvegur 1, um Skeiðarársand, er lokaður frá Kirkjubæjarklaustri að Freysnesi. Ekkert ferðafæri er á svæðinu þar sem öskufallið er mest og ekkert skyggni er til gosstöðvanna. Þeim sem ekki eiga brýnt erindi á svæðið er bent á að vera ekki á ferðinni.
Ekki er talin ástæða til að rýma svæðið en íbúar og þeir ferðamenn sem þegar eru á svæðinu hvattir til að halda sig innadyra og vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Þeir sem þurfa að vera úti eru hvattir til að nota rykgrímur og hlífðargleraugu.
Búið er að opna fjöldahjálparstöðvar í félagsheimilinu á Klaustri og Hofgarði fyrir þá sem treysta sér til að fara á þá staði. Íbúar á svæðinu eru hvattir til að hafa samband við nágranna sína og veita hver öðrum stuðning. Búið er að virkja hjálparsíma RKÍ 1717.
Verið er að vinna í að koma rykgrímum og hlífðargleraugum til þeirra sem eru á svæðinu en það gengur hægt vegna aðstæðna á vettvangi.
Birt:
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Eldgos í Grímsvötnum, staðan kl.10:40“, Náttúran.is: 22. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/22/eldgos-i-grimsvotnum-stadan-kl1040/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.