Gróður landsins getur verið óendanlega uppspretta ánægju og aðdáunar. Fjölmargar villijurtir eru einnig prýðilegar við ýmsum kvillum eða til matargerðar.

Að tína jurtir og finna nöfnin á þeim er skemmtileg og gagnleg afþreying fyrir fólk á öllum aldri. Börnum þykir skemmtilegt að meðhöndla blóm og blöð og að þekkja nöfnin á þeim gefur jurtunum aukið gildi. Besta leiðin til að nálgast jurtirnar er að teikna þær því þá þarf maður að skoða, telja og reikna. Einnig er hægt að gera myndir úr jurtunum sjálfum og skreyta öskjur og kort sér og öðrum til gleði og yndisauka.

Að koma sér upp, og hjálpa börnunum að koma sér upp sinni eigin „plöntubók“ með þurrkuðum blómum og teikningum af þeim er án efa besta leiðin til að læra um flóruna og lengi býr að fyrstu gerð!

Til þess að þurrka jurtir þarf að setja þær undir einhverskonar farg strax eftir tínslu. Best er að nota bók eða bunka af dagblöðum og leggja eitthvað þungt ofan á dagblöðin þegar heim kemur. Ef þú vilt tína jurtir í ferðalaginu er gott að vera með dagblaðabunka í skottinu á bílnum til að leggja jurtirnar í og leggja síðan eitthvað af farangri ofan á bunkann. Nú eða nota gamla bók sem þér er kannski ekki of annt um því vökvinn úr jurtunum gæti krullað upp síðurnar í bókinni. Símaskrá frá síðasta ári hentar vel í þessu sambandi en auðvitað er líka hægt að kaupa sérstakar jurtapressur í blóma- og tómstundabúðum en þær eru handhægar og skemmtilegar.

Til að auðvelda leit að heitum jurta er tvímælalaust hægt að mæla með „Íslensku plöntuhandbókinni“ eftir Hörð Kristinsson en þar er hægt að leita eftir litum blóma og forms laufblaða á aðgengilegan hátt, líka fyrir börnin.

Flóru Íslands á netinu floraislands.is bíður einnig uppá þægilega leið til að leita eftir heitum jurta.

Í Grasa-Guddu Náttúrunnar er að finna mikið efni um villtu jurtirnar okkar og hvernig þær geta nýst okkur.

Skoða floraislands.is

Sjá Grasa-Guddu.

Birt:
19. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Villigróður“, Náttúran.is: 19. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/grur/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: