Bensín og dísel úr jarðolíu eru algengustu orkugjafarnir fyrir farartæki en það er mikilvægt að þróa betri tækni og finna nýja orkugjafa til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af völdum þessara orkugjafa. Almenningur og löggjafinn vilja sjá sparneytna, hagkvæma og mengunarlitla bíla en er það framkvæmanlegt og hvaða möguleikar eru í stöðunni?
Fljótvirkasta aðgerðin til að draga úr bensín og dísel eyðslu er að minnka óþarfa notkun og hvetja til þess að keypt séu sparneytnari tæki. Þetta þekkja bíleigendur mætavel því vörugjöld á bíla fara eftir koltvísýringslosun til að hvetja nýja kaupendur að velja litla sparneytna bíla. Eldsneytisverð er síðan skattlagt mikið eins og allir þekkja til að draga úr notkun. Þetta er ein aðferðin, að draga saman seglin. Önnur aðgerð og stórtækari er að reyna að nota aðra orkugjafa.

Orkuskipti
Að skipta um orku í samgöngum er risavaxin aðgerð og fyrir utan framleiðslu og dreifingu á nýrri orku þarf að skoða aðlögun að þeim vélum sem til eru fyrir. Best er ef ný orkutegund gengur án mikilla vandkvæða á eldri farartæki. Það gengur aldrei áreynslulaust en þær eldsneytistegundir sem eru hvað skástar í þessu samhengi eru t.d. lífdísel og etanól. Núverandi vélar eru þróaðar fyrir það eldsneyti sem þeim er ætlað að brenna til að hámarka nýtni og endingu. Því koma alltaf upp margvísleg vandamál þegar annað eldsneyti er notað en til er ætlast. Verra er ef nýtt eldsneyti kallar á miklar breytingar á eldri búnaði. Þar má nefna t.d. metan sem krefst plássfrekra og sterkra gaskúta með tilheyrandi kostnaði og rýrnunar á notagildi bílsins. Metanið er kannski betri valkostur fyrir nýjar gerðir bifreiða því þá má hanna yfirbyggingu bílsins strax frá upphafi með tilliti til gaskútanna. Erfiðasti valkosturinn er ef skipta ætti yfir í nýja orku með algerlega nýjum vélargerðum. Hér mætti nefna vetnisrafbíla. Slík aðgerð væri mjög dýrt dæmi sem myndi kosta breytingar á innviðum þjóðfélagsins og tæki mörg ár að framkvæma.

Þegar rætt eru um orkuskipti í samgöngum á Íslandi þá hugsa kannski flestir um eldsneytið á einkabílinn. Hlutfall einkabílsins af eldsneytisnotkuninni er samt frekar lítið borið saman við skip og flugvélar. Dísel og flotaolía er notuð á skipaflotann, vinnuvélar, sendi- og vörubílar, rútur og strætisvagna. Þessi tæki eru í notkun allan daginn, knúin áfram af stórum vélum og eyða miklu eldsneyti. Togari eyðir kannski tonni af díselolíu á klukkustund og stór vinnuvél fer léttilega með 200 lítra yfir daginn borið saman við fólksbíl sem eyðir kannski 100 lítrum á mánuði. Ekki má heldur gleyma flugvélaflotanum en millilandaþota fer með mörg tonn af eldsneyti í hverri ferð. Orkuskipti í samgöngum verður því að horfa til allra þátta.

Sjá nánari umfjöllun í greininni „Orkusparnaður í samgöngum, hvað ber framtíðin í skauti sér“.

Birt:
1. maí 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Einar Einarsson, Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Orka og eldsneyti“, Náttúran.is: 1. maí 2013 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/eldsneyti/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 12. júní 2014

Skilaboð: