Vefur um Rammaáætlun lítur dagsins ljós
Framkvæmd Rammaáætlunar um nýtingu vatnsorku og jarðvarma hófst með skipun verkefnisstjórnar vorið 1999. Vönduð, fagleg og trúverðug áætlun kallaði á rannsóknir, aðkomu hagsmunaaðila og sérfræðinga og skildi verkið unnið í tveim áföngum. 1. áfanga var hrint úr vör árð 1999 og lauk árið 2003. Í 1. áfanga voru 19 virkjunarkostir í 10 jökulám og 24 kostir á 11 háhitasvæðum metnir. Annar áfangi fór siðan í gang árið 2004 og stendur til að ljúka honum fyrir árslok. Öðrum áfanga er m.a. ætlað að endurmeta alla virkjunarkosti og skila endanlegum niðurstöðum sem meti landslagsverðmæti og virkjunarkosti til jafns. Þar sem Rammaáætlun er ætlað að vera vettvangur „nýtingar og verndunar“ hefur að margra mati ekki verið nægjanlega vel staðið að verndunarþættinum og áherslan verið um of á nýtingarþáttinn.
Vandamálið hefur auðvitað verið að miklu meiri rannsóknargögn liggja fyrir um orkulindirnar sjálfar og nýtingargildi þeirra en vísindaleg gögn sem meta landslag út frá öðru en jarðfræði. Við fagurfræðilegt mat og gildi náttúrunnar út frá einstaka sjónarmiðum er hægt að véfengja niðurstöður og gera þær að engu ef skoðanir manna eru skiptar, sem þær eru. Listrænum og menningarlegum gildum getur að lokum verið fórnað á altari gróðahyggjunnar einungis út af því að aðferðafræðin til mats á náttúrunni fullnægir ekki kröfum um vísindalegar sannanir á því sem ekki er hægt að sanna vísindalega.
Tilgangur áætlunarinnar var frá upphafi að vera samráðsvettvangur um hvernig standa skuli að nýtingu/verndun dýrmætustu eignar þjóðarinnar, hinna endurnýjanlegu orkugjafa, náttúruaflanna sjálfra, vatnsins sem rennur til sjávar og hitans sem kraumar undir yfirborði jarðar. Nú eru tíu ár liðin síðan verkefnið fór af stað en á þeim tíma hafa virkjanir verið gangsettar og lón kaffært stór landsvæði. Ekki var beðið eftir að niðurstöður úr verkefninu lægju fyrir og margir eru orðnir úrkula vonar um að seinagangur við áætlunargerð sem þessa geri hana að ómerku plaggi þegar hún verður loks tilbúin.
Nú hefur loks verið opnaður vefur um Rammaáætlun sem gefur almenningin kost á að fylgjast með því hvernig verkefninu miðar áfram. Kynnið ykkur málið á vef Rammaáætlunar.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Vefur um Rammaáætlun lítur dagsins ljós“, Náttúran.is: 7. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/07/vefur-um-rammaaaetlun-litur-dagsins-ljos/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. mars 2009